Það lítur allt út fyrir að sinubruni hafi valdið reyknum og blossunum sem hafa verið sjáanlegir við Fagradalsfjall, að sögn Sigríði Kristjánsdóttur, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands.
Fulltrúar frá almannavörnum og lögreglu fóru í þyrluflug um klukkan eitt í kvöld til að kanna aðstæður eftir að blossar sáust í vefmyndavél mbl.is sem minntu á kviku.
Í tilkynningu frá almannavörnum sem barst rétt eftir klukkan tvö segir að ekki verði aðhafst frekar vegna þessa en áfram verði fylgst grannt með stöðu mála.
Að sögn Sigríðar var engin kvika sjáanleg þegar þyrlan flaug yfir og þá hafa heldur engin merki verið um gosóróa. Erfitt sé að segja til um hvort að kvika nálægt yfirborði hafi orsakað sinubrunann eða hvort um tilviljun hafi verið um að ræða.
Enn þyki líklegast að kvikan komi upp þar sem jarðskjálftavirkni hefur verið, sem er í um fjögurra til fimm kílómetra fjarlægð frá svæðinu þar sem bruninn er staðsettur.