Hákoni Pálssyni, ljósmyndara Morgunblaðsins og mbl.is, brá heldur í brún þegar hann fékk óvænt símtal um að gos væri hafið í Meradölum, þegar hann var nýkominn frá sjálfum staðnum. Hann hljóp aftur upp og myndaði gosið fyrstur blaðaljósmyndara.
„Staðan er sú að ég er kominn svona nokkurn veginn eins langt og ég kemst í þessari vindátt. Ég labbaði allan Langahrygginn sem er svona fljótlegasta leiðin til þess að komast að þessu,“ segir Hákon.
Hákon var staddur í Grindavík að mynda Guðna Th. Jóhannesson forseta og ákvað að koma við í Meradölum, þar sem reyk mátti sjá í gærkvöldi. Ekki bjóst hann við að gos væri hafið þegar í Meradalinn kom.
Þú varst þarna bara fyrir slysni ekki satt?
„Jú ég var bara að mynda eitthvað [af reyknum] fyrir eldfjallavaktina. Ég tók nokkrar myndir af túristum að stara á þennan reyk og svo var ég kominn niður þegar [fréttastjórinn] hringir í mig. Nú er ég kominn eins langt að því og ég mögulega kemst.“
Hákon er staddur norðanmegin við gosið, utan hraunbreiðunnar sem síðasta gos skóp. Hákon segir þó hægt að komast nær.
„Ef maður myndi fara vestari leiðina, í kring um Geldingadali, þá kæmist maður alveg að þessu,“ segir Hákon og bætir við að sú ferð hefði tekið um einn til tvo tíma til viðbótar fótgangandi.
„Nú eru þyrlurnar komnar. Þá er leikurinn búinn,“ segir Hákon hlæjandi en rétt eftir að símtalinu var slitið var búið að mynda austurhlið gossins.