Varast þurfi meira gas frá nýja gosinu

Frá gosinu í Meradölum í dag.
Frá gosinu í Meradölum í dag. mbl.is/Ágúst Óliver

Mikilvægt er að þeir sem geri sér ferð að gosstöðvunum í Meradölum hugi að gasmengun, þar sem hættuleg gastegund losnar úr kvikunni.

Þetta kom fram í samtali Elínar Bjarkar Jónsdóttur, hópstjóra veðurþjónustu hjá Veðurstofu Íslands, við mbl.is að loknum blaðamannafundi í dag.

Á fundinum kom fram að meira gas fylgdi gosinu í ár í samanburði við gosið í fyrra. Skýrist það af því að mun meiri kvika kem­ur nú upp.

Horfi á gosið undan vindi

Víðir Reyn­is­son­, yf­ir­lög­regluþjónn hjá al­manna­vörnum, sagði við mbl.is að höfð hefðu verið afskipti af fólki með ung börn við gosstöðvarnar í dag en ekki er ráðlagt að taka börn þangað vegna mengunarinnar.

„Það skiptir miklu máli, af því að þetta er hættuleg gastegund, að vera ekki með strókinn framan í sér. Fólk þarf að reyna að vera alltaf þannig að það horfi á gosið undan vindi, þannig að það sé alltaf að blása frá þér,“ segir Elín.

Þurfi ekki að hafa áhyggjur núna

Á blaðamannafundinum kom fram að innviðir væru ekki í hættu eins og er, en gosstöðvarn­ar eru fjær byggð og veg­um en eld­gosið í fyrra. Elín segir að eins og staðan sé núna þurfi ekki að hafa áhyggjur af innviðum. 

„Hraunflæðilíkönin okkar gera ráð fyrir því að það séu að minnsta kosti hundrað og eitthvað dagar þangað til að gosið geti komið nálægt Suðurstrandarvegi ef það heldur áfram á sama eða meiri krafti. Eins og staðan er núna þarf ekki að hafa áhyggjur af því.“

Elín Björk Jónasdóttir, hópstjóri veðurþjónustu hjá Veðurstofunni, á fundi almannavarna …
Elín Björk Jónasdóttir, hópstjóri veðurþjónustu hjá Veðurstofunni, á fundi almannavarna vegna gossins í dag. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert