Viðbragðsáætlun almannavarna hefur ekki verið virkjuð vegna ljósbjarma sem sést í reyknum við Fagradalsfjall, þvert á það sem fréttastofa ríkisútvarpsins greindi frá skömmu eftir miðnætti.
Þetta staðfestir Sólberg Svanur Bjarnason, deildarstjóri almannavarna.
Enn er verið að skoða og meta stöðuna og er það gert í nánu samstarfi við Veðurstofuna, að sögn Sólbergs Svans, en fulltrúar almannavarna ásamt fulltrúum lögreglu eru nú á leið á vettvang til að kanna aðstæður, um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar.
Skömmu fyrir miðnætti hóf fjöldi ábendinga að berast mbl.is vegna blossa sem virðast koma upp með reyknum við Fagradalsfjall.
Hulda Rós Helgadóttir náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands sagði í samtali við mbl.is að verið væri að fylgjast með stöðunni og að búið væri að láta almannavarnir vita.