Blasir við að stjórnvöld þurfi að flýta framkvæmdum

Jarðvís­inda­menn hafa bent á að nýtt gos­tíma­bil sé að hefjast …
Jarðvís­inda­menn hafa bent á að nýtt gos­tíma­bil sé að hefjast á Reykjanesskaga. mbl.is/Arnþór Birkisson

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri Niceair, kallar eftir því að stjórnvöld flýti framkvæmdum við Akureyrarflugvöll og stækki flugsvæðið. Mikilvægi hans sem varaflugvöllur hafi aukist vegna nýs gostímabils sem hafið er á Reykjanesskaga.

Jarðvís­inda­menn hafa bent á að nýtt gos­tíma­bil sé að hefjast á Reykjanesskaga. Síðasta gos­tíma­bil þar var árið 1210 til 1240 og er nefnt Reykja­neseld­ar en þá runnu fjög­ur hraun og gaus að minnsta kosti sex sinn­um í sjó.

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra sagði í samtali við mbl.is í dag mikilvægt að huga að uppbyggingu vara­flug­valla úti á landi. Nefndi hann sérstaklega Egilsstaðaflugvöll en einnig Akureyrarflugvöll.

„Þegar nóg er að gera í venjulegri starfsemi á flugvellinum þá er hann í raun ekki opinn sem varaflugvöllur vegna þess að það er ekki pláss fyrir aðrar flugvélar en þær sem eru hérna. Að auki hefur verið mikill vöxtur á einkaþotum sem koma til Akureyrar og á köflum er flugvöllurinn einfaldlega lokaður vegna þess að það vantar pláss á jörðu niðri,“ segir Þorvaldur í samtali við mbl.is.

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Niceair, telur brýnt að stækka Akureyrarflugvöll.
Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Niceair, telur brýnt að stækka Akureyrarflugvöll.

Stjórnvöld byrjuð að veita málinu athygli

Þorvaldur segir að stjórnvöld hafi fyrir 18 mánuðum byrjað að veita málinu athygli. Framkvæmdir séu hafnar við flugvöllinn en nú vanti fé til að klára þær.

„Það er búið að taka grunn að nýrri flugstöð og það er búið að grófjafna nýtt flughlað en einhverra hluta vegna hefur það staðið á framkvæmdavaldinu að veita fé til þess klára þessar framkvæmdir hið bráðasta,“ segir Þorvaldur og bætir við:

„Það er í raun þeim til hróss að á undanförnum 18 mánuðum hefur meira gerst en á síðustu fimm árum. Það má segja stjórnvöldum til hróss að þau eru að vakna upp við þetta, en það er frekar seint í rassinn gripið eins og við sjáum í ljósi stöðunnar í dag.“

Isavia vilji einungis fjármuni til Keflavíkur

Í ljósi eldgossins í Meradölum telur Þorvaldur blasa við að stjórnvöld þurfi að flýta sér að klára framkvæmdirnar.

„Mér finnst blasa við að þau eigi að flýta framkvæmdum hér og stækka flugsvæðið hið bráðasta. Það þarf bara að klára yfirborðslögin og malbika. Það þarf bara að klára þetta, það er allt til reiðu.“

Segir hann stjórnvöld ekki hafa klárað verkið vegna viljaskorts en jafnframt hafi Isavia lagst gegn öllum áformum um uppbyggingu annarra flugvalla en Keflavíkurflugvallar. 

„Isavia hefur undanfarin ár ekki viljað sjá fjármunum stjórnvalda varið í annað en uppbyggingu Keflavíkurflugvallar. Þau hafa í raun lagst gegn áformum um uppbyggingu annarra flugvalla en Keflavíkur.“

Flugvöllurinn geti annað meiru

Þorvaldur segir vel hafa gengið hjá Niceair en flugfélagið hóf starfsemi í sumar. Telur hann mikinn áhuga vera á flugi til og frá Akureyri og vísar til áforma þýska flugfélagsins Condor sem stefnir að því að hefja áætl­un­ar­flug til Ak­ur­eyr­ar og Eg­ilsstaða sum­arið 2023.

„Það hefur gengið vonum framar hjá okkur. Það hefur aldrei orðið nein röskun eða annað slíkt á okkar flugum. Við erum framúrskarandi ánægð með hvernig hefur til tekist. Við erum fullviss um það að flugvöllurinn geti annað meiru. Eins og áform Condor gefa til kynna þá er mikill áhugi á því að fljúga til annarra flugvalla en Keflavíkur,“ segir Þorvaldur og bætir við: 

„Kannski er það eins og oft áður, að menn vakna ekki fyrr en að annað hvort náttúran rumskar eða kallið kemur að utan.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert