Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, segir um breytt landslag vera að ræða þegar það kemur að viðbúnaði og fólksfjölda á gosstöðvunum ef miðað er við síðasta gos. Hann segir þessa miklu breytingu vera vegna fjölda erlendra ferðamanna sem eru á landinu um þessar mundir.
Mikill fjöldi erlendra ferðamanna hefur lagt leið sína að gosstöðvunum síðan gosið hófst í gær en Pálmi Árnason, svæðisstjóri björgunarsveitarinnar Þorbjarnar, sagði í samtali við mbl.is að meirihluti göngugarpa á svæðinu væru erlendir ferðamenn.
Víðir segist reikna með talsvert meiri fjölda á gosstöðvunum núna heldur en í fyrra og vísar til kórónuveirufaraldursins sem kom í veg fyrir að fólk flykktist til landsins þegar það hóf að gjósa á síðasta ári.
„Okkar plön miða að því að þarna verði meira fólk og fleiri óvanir. Íslendingar eru náttúrulega vanir aðstæðum, þótt að margir Íslendingar hafi lent í veseni síðast. Við reiknum með að erlendu ferðamennirnir verði hrein viðbót við þá Íslendinga sem hafa verið að fara.“
Hann segir að þeir geti ekki reiknað með öðru en að það verði meira að gera hjá þeim núna heldur en í síðasta gosi. Þá bætir hann við að það sé á dagskrá að setja upp skilti og annað á svæðinu sem gæti varað erlenda ferðamenn við.
„Það er verið að skoða hvernig skilti myndu koma að gagni og hvar sé hægt að setja þau þannig að þau myndu skila sem mestum árangri.“
Þá bætir Víðir við að almannavarnir séu í samstarfi við upplýsingagjafarvefinn SafeTravel til að koma fræðslu og upplýsingum áleiðis til ferðamanna. Slysavarnafélagið Landsbjörg heldur utan um vef SafeTravel og þar er upplýsingum miðlað á nokkrum tungumálum.