Dregið úr krafti eldgossins

Sprungan var um 260 metra löng í upphafi en er …
Sprungan var um 260 metra löng í upphafi en er nú um 135 metrar. Gígur mun myndast á næstu dögum. mbl.is/Arnþór

Kvikuþrýstingur hefur dottið niður og gossprungan því dregist töluvert saman eftir að eldgosið hófst. Sprungan var fyrst um 260 metrar að lengd en er nú um 135 metrar. Þetta segir Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur hjá jarðvísindastofnun Háskóla Íslands.

„Það sem er að gjósa er að dragast saman. Þegar að kvikuþrýstingur dettur niður þá dregst gosopið saman,“ segir hann og bætir við að um sé að ræða eðlilega þróun.

Ármann telur að gígur muni taka á sig mynd á næstu dögum, líkt og gerðist við gosið í Geldingadölum.

„Nú fer að myndast gígur. Ég held það verði kominn gígur þarna á morgun eða hinn. Hann nær ekki að byggja gíginn út af hrauntjörninni þarna í dalverpinu.“

Jókst í fyrra en var þó minna

Hið nýja gos er mun kraftmeira en það sem var í Geldingadölum í fyrra og er sprungan mun stærri.

„Það er mun meiri kraftur í þessu í byrjun. Þetta byrjaði í um 20 rúmmetrum á sekúndu.“

Öfug þróun hefur þó verið í þessu eldgosi samanborið við eldgosið í Geldingadölum þar sem krafturinn jókst. „Til að byrja með var það fimm [rúmmetrar á sekúndu] en síðan fór það upp í tíu til fimmtán þegar mest var. Sprungan var miklu minni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert