Gætu sett bann við drónaflugi við eldgosið

Samgöngustofa gæti bannað dróna eða sett verulegar takmarkanir á notkun …
Samgöngustofa gæti bannað dróna eða sett verulegar takmarkanir á notkun þeirra. mbl.is/Arnþór

Samgöngustofa gæti sett verulegar takmarkanir eða bann við drónaflugi við eldgosið við Fagradalsfjall ef reglur um drónaflug, sem tryggja eiga öryggi, verða brotnar.

Í tilkynningu frá stofnuninni eru reglur um drónaflug rifjaðar upp og tekið fram að þær hafi verið settar á m.a. til að tryggja aðgreiningu dróna og annarra loftfara.

Þá kemur einnig fram að vegna eldgossins megi búast við reglubundnu rannsóknarflugi flugvéla og þyrlna á vegum stjórnvalda. Samhliða þessu verði skilgreint bannsvæði fyrir dróna á meðan rannsóknarflugið fer fram. Hætt er við að stuttur fyrirvari verði á slíku og mun umfang og gildistími markast af aðstæðum hverju sinni. Því þurfi stjórnendur dróna að fylgjast með nýjustu tilkynningum um slíkt bannsvæði á vef almannavarna. 

Reglur um drónaflug:

  • Drónar skulu ekki fljúga hærra en 120 m yfir jörðu.
  • Drónar skulu víkja fyrir mönnuðum loftförum.
  • Dróna má ekki fljúga utan sjónsviðs stjórnanda hans.
  • Umráðandi dróna ber ábyrgð á því tjóni sem kann að hljótast af notkun hans.
  • Til dróna í atvinnuskyni eru gerðar frekari kröfur, til dæmis um skráningu. Stjórnendur dróna skulu fylgjast með nýjustu tilkynningum um slíkt bannsvæði á vef almannavarna. Upplýsingar verða reglulega uppfærðar þar.
  • Hættu- eða haftasvæði fyrir loftför önnur en dróna verða auglýst með NOTAM.
  • Jafnframt er bent á upplýsingar í flugmálahandbók AIP og gagnlegar upplýsingar og reglur um drónaflug.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert