Huga að varaflugvöllum vegna Reykjanesskaga

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra telur mikilvægara nú en áður að Reykjavíkurflugvöllur …
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra telur mikilvægara nú en áður að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í Vatsnmýrinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segir nýtt gostímabil ítreka enn frekar mikilvægi þess að hugað sé að uppbyggingu varaflugvalla úti á landi af alvöru. Í þeim efnum hefur sérstaklega verið horft til Egilsstaðaflugvallar en einnig Akureyrarflugvallar.

Almannavarnakerfið sé vel undirbúið til þess að takast á við gosið.

Jarðvísindamenn hafa bent á að nýtt gostímabil sé að hefjast á Reykjanesskaga. Síðasta gostímabil þar var árið 1210 til 1240 og er nefnt Reykjaneseldar en þá runnu fjögur hraun og gaus að minnsta kosti sex sinnum í sjó.

„Við erum heppin, miðað við þær fréttir sem við höfum fengið frá vísindamönnum, að staðsetningin skuli vera þarna og þegar við horfum til þeirrar framtíðarmyndar að Reykjanesskaginn sé að vakna af langri dvöl,“ segir hann. 

Skoða mögulegar sviðsmyndir

„Það er ófyrirséð hvar næst byrjar að gjósa. Þetta eru nokkur virk gossvæði sem geta gosið og við vitum að það eru margir mikilvægir innviðir á mörgum stöðum,“ segir Jón. Því er samráðshópar þvert á ráðuneyti að teikna upp mismunandi sviðsmyndir sem upp geta komið, með þátttöku verkfræðistofa.

Við munum áfram vinna að áætlanagerð og undirbúningi til þess að geta tryggt innviði, ef þessi gos fara að hafa áhrif á mikilvæga innviði eins og rafmagn, leiðslur, heitt vatn og samgöngukerfi. Manni er það efst í huga núna,“ segir Jón. 

Flugvöllurinn þurfi áfram að vera Vatnsmýrinni

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur vakti athygli á því að huga þyrfti betur að flugöryggi og að staðsetning Keflavíkurflugvallar sé óheppileg ef við erum að stíga inn í gostímabil. Hefur verið hugað að þessu?

„Já, það má segja að við séum með þrjá varaflugvelli fyrir Keflavíkurflugvöll virka í dag. Það eru Reykjavíkurflugvöllur, Egilsstaðaflugvöllur og Akureyrarflugvöllur,“ segir hann og bætir við að allir gegni mikilvægu hlutverki.

„Þessar uppákomur ítreka bara enn frekar mikilvægi þess að við hugum að alvöru uppbyggingu á varaflugvöllum úti á landi. Þar hefur sérstaklega verið horft til Egilsstaðaflugvallar en einnig flugvallarins á Akureyri. Þetta lá fyrir áður en faraldurinn skall á og dró úr ferðamannastraumi,“ segir hann en þá hafi verið mikilvægt að fara í slíkar framkvæmdir.

Jón telur að miðað við núverandi aðstæður eigi Reykjavíkurflugvöllur að vera áfram í Vatnsmýrinni.

„Nú má segja að sé komin ný breyta inn á þetta svæði. Ég held að menn verði að átta sig á því að Reykjavíkurflugvöllur er ekki á förum. Á meðan hann sinnir hlutverki sínu sem samgöngumiðstöð innanlandsflugsins skiptir máli að menn séu ekki í einhverri óvissu og hagi uppbyggingu með þeim hætti að hann geti sinnt þeirri þjónustu sem hann sinnir í dag,“ segir Jón í lokin. 

Ferðafólk fari varlega

Það sem standi þó upp úr í augnablikinu sé að gosið muni ekki ógna innviðum eða innviðastarfsemi. Þá þurfi ferðamenn að fara varlega, vilji þeir leggja leið sína að gosinu.

„Það sem stendur upp úr núna er að í augnablikinu virðist vera að þetta gos muni ekki ógna okkar innviðum eða okkar innviðastarfsemi eins og flugi og slíku þótt það sé ekki hægt að segja hvernig þetta þróast inn í framtíðina,“ segir hann. 

Það sé ástæða til þess að hvetja fólk til þess að fara að mikilli varkárni og taka mið af skilaboðum frá viðbragðsaðilum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka