Meradalir gætu fyllst á viku

Hraun rennur nú bæði til suðurs og norðurs.
Hraun rennur nú bæði til suðurs og norðurs. mbl.is/Arnþór Birkisson

Hraun gæti fyllt Meradali á um það bil viku ef framleiðnin helst í um 30 rúmmetrum á sekúndu. Þetta segir Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur í samtali við mbl.is.

Framleiðni er nú á bilinu 15 til 30 rúmmetrar á sekúndu; ef hún helst í 15 rúmmetrum á sekúndu gæti það tekið hraunið um 3 vikur að fylla Meradali.

Ef Meradalir fyllast verður að huga að innviðum, svo sem Suðurstrandarvegi, að sögn Þorvaldar.

Fulltrúar almannavarna funduðu ásamt jarðvísindafólki um stöðuna á Reykjanesskaga í morgun og var þar farið yfir ólíkar sviðsmyndir hvað varðar framhald gossins.

Þorvaldur segir mögulegt að hraun fylli Meradali á viku.
Þorvaldur segir mögulegt að hraun fylli Meradali á viku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Spurning hvaða leið hraunið velur – tvær líklegar

Hraun rennur nú bæði til suðurs og norðurs. 

„Það er að hlaðast hraun í gilið norðan eða norðaustan við sprunguna. Ef það heldur áfram er líklegt að hraunið finni sér leið til norðurs eða jafnvel að Þráinsskildi,“ segir Þorvaldur, en svo nefnist um­fangs­mesta hraunið við Fagra­dals­fjall frá lok­um síðasta jök­ul­skeiðs, og er það í raun gríðar­stór dyngja.

Hins vegar er komin hraunrás inn í Meradali og vellur hraunið yfir eldra hraunið frá gosinu 2021. „Síðan er bara spurning hvor þessara rása, sem eru að fara í andstæðar áttir, verður ráðandi varðandi dreifingu á hrauninu frá gígnum,“ segir hann.

Framleiðnin er meiri en í gosinu í Fagradalsfjalli árið 2021 og hefur framleiðnin haldist nokkuð jöfn, eða í 15 til 30 rúmmetrum á sekúndu. Hins vegar hefur sprungan dregist saman og orðin innan við 200 metrar á lengd en auk þess hefur virknin dregið sig á færri gíga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka