Mögulegt gos í Grímsvötnum til umræðu

Horft yfir Grímsvötn.
Horft yfir Grímsvötn. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Mögulegt gos í Grímsvötnum var á meðal þess sem rætt var á fundi almannavarna og jarðvísindamanna í morgun, þar sem annars var farið yfir hvernig gosið á Reykjanesskaga gæti þróast.

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir að eldstöðin sé komin á tíma. Ellefu ár eru frá síðasta gosi en það þykir heldur langur tími. 

Skjálftar síðustu daga

Gefinn hefur verið út gulur fluglitakóði fyrir Grímsvötn. Var þetta gert eft­ir að nokkr­ir jarðskjálft­ar stærri en 1,0 að stærð mæld­ust þar síðdeg­is á þriðjudag.

Stærsti skjálft­inn mæld­ist 3,6 að stærð þann dag og hefur jarðskjálfta­virkni þótt óeðlileg miðað við hefðbundna bak­grunns­virkni.

Fleiri skjálftar hafa orðið við eldstöðina síðan, sá stærsti eftir hádegi í gær af stærðinni 2,2. Annar skjálfti, 1,8 að stærð, reið yfir á þriðja tímanum í dag.

Mælar á Veðurstofu Íslands sýna fram á jarðhræringar við Grímsvötn. …
Mælar á Veðurstofu Íslands sýna fram á jarðhræringar við Grímsvötn. Mynd úr safni. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Tilbúin að gjósa á síðustu árum

Árið 2020 hafði þenslan í Grímsfjalli þegar náð sama marki og fyrir síðasta gos, sem varð árið 2011 og var það kröftugasta í um 140 ár. Eldstöðin hefur því í raun verið tilbúin að gjósa, að mati jarðvísindamanna, um þónokkurt skeið.

„Landrisið heldur áfram,“ sagði Benedikt Gunnar Ófeigsson, sérfræðingur Veðurstofunnar í jarðskorpuhreyfingum, í samtali við mbl.is í september á síðasta ári.

„En það er hægara en í upphafi. Það hægir á sér eftir því sem lengra dregur frá síðasta gosi. Það er einnig eitt af merkjunum, um að það sé að styttast í næsta gos. En það er stöðugt landris,“ sagði Benedikt þá.

Skjálftavirknin hefur að sama skapi farið smám saman vaxandi.

„Það er annað langtímamerki sem við höfum horft á, sem mögulegan undanfara Grímsvatnagosa. Öll gögn benda því til þess að Grímsvötn séu tilbúin að gjósa og að þau hafi verið það síðasta árið, ef ekki síðustu tvö,“ sagði Benedikt í september í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert