Telja nokkur þúsund hafi sótt gosstöðvarnar í gær

Björgunarsveitin var á svæðinu í gær að aðstoða ferðamenn sem …
Björgunarsveitin var á svæðinu í gær að aðstoða ferðamenn sem sóttu á svæðið. mbl.is/Ágúst Óliver

Fleiri erlendir ferðamenn en Íslendingar voru á gosstöðvunum í gær af þeim nokkur þúsundum sem fóru. Þetta staðfestir Pálmi Árnason, svæðisstjóri björgunarsveitarinnar Þorbjörns, í samtali við mbl.is.

Pálmi segir að þó nokkuð hafi verið um illa búna ferðamenn á gönguslóðinni en hluti þeirra hafi þó haft skynsemina til að snúa við í göngunni. Þá hafi fjöldi ferðamanna verið þannig að ómögulegt hafi verið að telja fólkið. Hann segir þó ljóst að nokkur þúsund manns hafi verið á svæðinu.

Nokkuð um illa búna ferðamenn

Að sögn Pálma var þó nokkuð um illa búna ferðamenn á gönguslóðinni að gosstöðvunum.

„Mikið af fólkinu fór bara hálfa leið og sneri síðan við. Það sá sér ekki fært að fara lengra. Það var mikið af erlendu fólki þarna sem var nýkomið úr flugi.“

Hann bætir þá við að það hafi gengið vel hjá björgunarsveitinni að stöðva þetta fólk á leið sinni og ráðleggja þeim. Þá þurfti einnig að flytja einn slasaðan ferðamann frá vettvangi með þyrlu í nótt en sá ökklabrotnaði.

Fleiri erlendir ferðamenn en Íslendingar

Að mati Pálma voru talsvert fleiri erlendir ferðamenn heldur en Íslendingar á gosstöðvunum í gær. Hann bendir á að það sé töluverð breyting frá síðasta gosi í Geldingadölum þegar að Íslendingar fjölmönnuðu á gosstöðvarnar. 

„Það voru nokkrar rútur komnar þarna með erlenda ferðamenn í gær.“

Þau hjá björgunarsveitinni búast við enn fleiri gestum við gosstöðvarnar í dag. Að sögn Pálma byrjaði fólk að streyma inn á svæðið klukkan átta í morgun og þá mestmegnis erlendir ferðamenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert