Öryggi fólks á svæðinu aðalatriðið

Ingibjörg segir þess virði að velta fyrir sér hvort betra …
Ingibjörg segir þess virði að velta fyrir sér hvort betra sé að eiga gönguferðina eftir. mbl.is/Ari Páll

„Það sem hefur verið aðalatriðið í dag er öryggi fólks sem fer á gossvæðið og undirbúningur fyrir gönguleiðir og gönguleiðakort og allt sem gerir veru fólks á svæðinu öruggari,“ segir Ingibjörg Lilja Ómarsdóttir, fagstjóri endurreisnar hjá almannavörnum.

Almannavarnir hafa fundað með viðbragðsaðilum, sveitarfélögum, ferðaþjónustunni og fleirum í dag í tengslum við eldgosið í Meradölum.

Ingibjörg bendir á mikilvægi þess fólk sé vel búið og hugi að nesti, fylgist með veðurspá og því um líkt. „Þetta hafa verið áherslurnar á fundunum í dag.“

Undirbúa langtíma skipulag

Spurð hvort björgunarsveitarmenn muni áfram standa vaktina við gosstöðvarnar segir Ingibjörg svo vera og að ekki sé komið á hreint hve lengi þeir muni sinna gæslu á svæðinu.

„En það er, eins og með aðgengið sjálft, verið að undirbúa langtíma skipulag fyrir það af því að við vitum ekkert hvenær þessu gosi lýkur en vitum það allavega að síðasta gos stóð yfir í sex mánuði, þannig að þetta gæti alveg orðið langtímaverkefni.“

Veðrið sé mjög varhugavert

Mælið þið gegn því að fólk fari að gosstöðvunum um helgina vegna veðurs?

„Veðrið er náttúrulega mjög varhugavert og skyggnið mjög lítið, þannig að það er í rauninni spurning hvort það sé verðugt að fara þangað með tilliti til þess af því að fólk sér afskaplega lítið þessa stórbrotnu náttúru sem eldgos er.

Þannig að það er alveg þess virði að velta því fyrir sér hvort það sé ekki bara betra að eiga þessa gönguferð eftir í betra veðri, vegna þess að þetta tekur alveg í kringum sjö klukkustundir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert