Þarf að greiða aðgengi björgunarsveita

Grindavíkurbær mun eiga frumkvæði á lagfæringu á aðgengi að gosstöðvunum …
Grindavíkurbær mun eiga frumkvæði á lagfæringu á aðgengi að gosstöðvunum í Meradölum. mbl.is/Ágúst Óliver

Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, segir í samtali við mbl.is að strax verði hafist handa við lagfæringar á aðgengi að gosstöðvunum í Meradölum.

Í morgun sat Fannar fundi ásamt öðrum með almannavörnum, landeigendum að gossvæðinu, Umhverfisstofnun, yfirvöldum, björgunarsveitum og lögreglu. Hann segir samhljóm hafa verið um að bregðast við eldgosinu.

„Það er talið mjög brýnt að minnka eins og hægt er líkurnar á því að fólk meiðist þarna á svæðinu með alls konar merkingum og lagfæringum og stígum. Grindavíkurbær taki frumkvæði að því að hefja strax lagfæringar á þessum vegum til þess að hægt sé að gera greiðari aðkomu björgunarsveita og hjúkrunarfólks og tækja inn á svæðið ef á þarf að halda, bæði til vöktunar og ekki síður til að koma meiddu og örmagna fólki til aðstoðar,“ segir Fannar í samtali við mbl.is.

„Á seinni fundinum í morgun voru allir málsaðilar á því að gera þetta og í framhaldi var sett í gang áætlun um að hefjast strax handa við lagfæringar. Bærinn reynir að sjá til þess að þetta verk verði unnið hratt og vel. Við verðum að finna út úr fjármagninu síðar en okkur er falið að gera þetta og við munum ganga í það,“ segir Fannar.

Hann segir að Grindvíkingar taki verkefninu af æðruleysi og eins og hverju öðru verkefni.

„Bærinn tekur að sér að sinna þessu og það er ekkert nema sjálfsagt.“

Fannar Jónasson bæjarstjóri Grindavíkur.
Fannar Jónasson bæjarstjóri Grindavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óttast ekki innviði en fólk passi sig á gasi

„Ég held það sé engin hræðsla hjá fólki. Við erum reynslunni ríkari, þetta er meira að segja aðeins fjær heldur en í fyrra. Hraunið er ekki að ógna neinum innviðum hjá okkur,“ segir Fannar.

Hann segir að hugsanlega geti komið að því eftir einhverja mánuði að hraun fari að ógna vegum bæði norðantil og sunnanvið Grindavík en það sé langt í það. Enginn viti hvað þetta muni standa lengi.

„Hins vegar er gasið það sem þarf að passa upp á. Það þarf að passa sig á því að fá ekki gosmökkinn í fangið og síðan berst þetta langar leiðir.“

Stútfullt tjaldsvæði

Mikil aðsókn hefur verið að gosstöðvunum og er ljóst að ferðafólk kýs margt að gista í nágrenni Meradala.

„Tjaldsvæðið er meira en fullt, það er stútfullt. Ég hef aldrei séð annað eins,“ segir Fannar.

„Þetta er mjög gott tjaldsvæði og velbúið og ágætlega rúmt að jafnaðii en er það engan vegin núna og allar gistingar upp pantaðar.“

Fannar segir mögulegt að Grindavíkurbær geri eitthvað til að takast á viði fólksfjöldan á tjaldsvæðinu og það verði skoðað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert