Viðbragðsáætlun fyrir hendi ef rýma þarf

Skaðleg gasmengun kemur úr eldgosinu í Meradölum og dreifist víða …
Skaðleg gasmengun kemur úr eldgosinu í Meradölum og dreifist víða um landið í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Töluverð gasmengun verður yfir Vogum á Reykjanesskaganum í kvöld samkvæmt gasdreifingarspá Veðurstofu Íslands. Frá klukkan sex til tíu er búist við á bilinu 600 til 2.600 míkrógrömmum af skaðlegu gasi á hvern rúmmetra af andrúmslofti.

Þetta segir Elín Björk Jón­as­dótt­ir, veður­fræðing­ur hjá Veður­stofu Íslands, í sam­tali við mbl.is.

Umsjónarmaður eigna hjá þjónustumiðstöð Voga segir að allar viðbragðsáætlanir séu fyrir hendi ef gasmengun verður það mikil að rýma þurfi bæinn.

Samkvæmt loftgæðatöflu Umhverfisstofnunar eru meira en 600 míkrógrömm af gasi á hvern rúmmetra óholl fyrir viðkvæma. Það getur valdið hósta, ertingu í augum, koki og nefi. Þá mælir Umhverfisstofnun með því að fólk forðist áreynslu utandyra, haldi börnum inni og slökkvi á loftræstingu.

Á vefsíðu Veðurstofu Íslands má sjá gasdreifingaspá. Töluverð mengun verður …
Á vefsíðu Veðurstofu Íslands má sjá gasdreifingaspá. Töluverð mengun verður yfir Vogum í dag. Kort/Veðurstofa Íslands

Viðbragðsáætlanir tilbúnar ef rýma þarf

Elín segir þó mikilvægt að taka spána með ákveðnum fyrirvara þar sem hún geti enn breyst og styrkleikamælingar ekki alltaf áreiðanlegar.

„Við lærðum það síðast að módelið er frekar mistækt að spá um styrk en það spáir ágætlega þegar kemur að átt. Það er best að taka þetta með ákveðnum fyrirvara og fylgjast með rauntímamælingum á loftgaedi.is,“ segir Elín.

Þá segir Jóhann Ingimar Hannesson, umsjónarmaður eigna hjá þjónustumiðstöð Voga, að allar viðbragðsáætlanir séu fyrir hendi ef gasmengun verður það mikil að rýma þurfi bæinn. Jóhann tekur þá fram að það sé í höndum almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra hvort rýma þurfi.

Ellen Lind, íbúi í Vogum og staðgengill Jóhanns, segist ekki finna fyrir gaslykt á svæðinu núna en bætir við að það gæti breyst með kvöldinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert