Líklega lokað fyrir aðgengi að gosinu á morgun

Veðurspáin fyrir morgundaginn er ekki góð.
Veðurspáin fyrir morgundaginn er ekki góð. mbl.is/Hákon Pálsson

Búist er við að aðgengi að gosstöðvunum í Meradölum verði lokað á morgun vegna slæms veðurs. Almannavarnir biðla til Íslendinga að koma skilaboðunum áfram til erlendra ferðamanna þar sem almennt hefur reynst erfiðara að koma skilaboðum áleiðis til þeirra. 

Eins og mbl.is hefur greint frá er veðurspáin núna um helgina ekki góð fyrir gosgöngu. Búist er við hvassviðri og rigningu á morgun.

„Það er verið að bíða eftir nýjustu spám en mér heyrist á því sem bæði björgunarsveitin og lögreglan á svæðinu segja að það sé mjög líklegt að aðgenginu verði lokað,“ segir Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi almannavarna, í samtali við mbl.is.

Ekki er ljóst hvort svæðið verði lokað allan daginn eða einungis hluta dags.

„Það skýrist þegar líður á þennan dag. Okkur finnst líklegt að seinni partinn í dag geti Veðurstofan veitt okkur ítarlegri upplýsingar,“ segir Hjördís.

Vilja koma skilaboðunum til erlendra ferðamanna

Þá biðla almannavarnir til Íslendinga að koma skilaboðunum áleiðis til erlendra ferðamanna.

„Við höfum helst áhyggjur af því að þetta berist ekki til erlendra ferðamanna. Við biðlum til fólks að hjálpa okkur að koma skilaboðunum til þeirra,“ segir Hjördís.

Þá er einnig til skoðunar að breyta sms-skilaboðunum sem send eru til allra þeirra sem mæta á gosstöðvarnar, en nú fá allir sem koma á svæðið sendar upplýsingar um gosið.

„Það er verið að skoða það hvort við breytum þeim skilaboðum eða hvort við reynum að gera þetta með öðrum leiðum. Þú færð auðvitað skilaboðin þegar þú ert kominn á svæðið. Við vitum hvernig mannlega eðlið er, þú ert kominn og þá hugsar þú „æ ég læt mig hafa það“. Við viljum því koma skilaboðunum til fólks áður en það leggur af stað,“ segir Hjördís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert