Lítil breyting hefur verið á eldgosinu í Meradölum frá því í gærkvöldi, að sögn náttúrvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands.
Í gær þegar mbl.is ræddi við Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur hjá jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, sagði hann að gossprungan væri búin að styttast og lengdin væri nú rétt innan við hundrað metra. Þá nam hraunrennslið um 10 til 15 rúmmetrum á sekúndu. Er það álíka mikið og þegar að eldgosið í Geldingadölum var upp á sitt besta.
„Það hefur ekki verið nein breyting á þessu. Þetta er bara að malla,“ segir Böðvar Sveinsson náttúruvársérfræðingur.
Þoka er á svæðinu núna en það á að létta til eftir því sem líður á daginn. Á morgun verður aftur á móti mjög hvasst og rigning.
Hvað gosmengun varðar segir Böðvar ekki útlit fyrir að hún geri vart við sig fyrr en upp úr hádegi í dag. Þá stefnir hún í átt að Hveragerði fyrst en svo breytist vindáttin og mengunin fer í áttina að Þorlákshöfn, Stokkseyri og Eyrarbakka.
Hægt er að fylgjast með gasdreifingarspá inn á vef Veðurstofunnar.