Ofbeldi en ekki tjáningarfrelsi

„Sem talskona sem hefur verið mikið að tala opinberlega og …
„Sem talskona sem hefur verið mikið að tala opinberlega og beitt sér fyrir réttindum trans fólks, hef ég oft verið á milli tannanna á fólki,“ segir Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir. Ljósmynd/Móa Hjartardóttir

Ugla Stefanía býr í Brighton á Englandi og því ekki hægt að hittast í raunheimum yfir góðum kaffibolla. En við völdum næstbesta kostinn; að „hittast“ í gegnum myndsímtal til að ræða um málefni hinsegin fólks, um æsku Uglu í sveitinni, hvernig var að koma út sem trans, baráttuna fyrir réttindum og hvað er til ráða þegar fordómar og níðskrif viðgangast í þjóðfélaginu.

Mikilvægasta ferð lífsins

Um átján ára aldur kom Ugla út sem trans.

„Fram að því hafði ég spilað mikið tölvuleiki á netinu og í einum þeirra spilaði ég við alls konar fólk úti í heimi. Þar byrjaði ég að prufa mig áfram og það gerðu allir ráð fyrir að ég væri stelpa. Ég leiðrétti það ekkert og fannst það skemmtilegt. Á endanum var ég komin í vinahóp sem vildi hittast í alvöru og þá byrjaði ég á að koma út fyrir vinkonu minni. Við ákváðum að fara til Englands að hitta þennan hóp. Hún hjálpaði mér að finna mig og þar keyptum við á mig ný föt og ég prufaði ýmislegt sem ég hafði aldrei leyft mér áður. Ég fékk að prófa að vera kona í samfélaginu þar sem enginn þekkti mig. Þessi ferð var í raun ein mikilvægasta ferð sem ég hef farið í. Þarna fékk ég tækifæri til að leyfa mér að vera ég, nokkuð sem ég hafði aldrei getað,“ segir hún og segist hafa í lestinni á leiðinni út á flugvöll hitt tvær íslenskar konur og tóku þær tal saman.

„Þegar við stigum upp í flugvélina voru þær þar flugfreyjur. Ég var þá búin að skipta aftur um föt því í vegabréfinu var ég á gamla nafninu mínu. Það var svona augnablik sem ég hugsaði; „jæja, nú verð ég að gera eitthvað í þessu. Þetta geta ekki verið tveir aðskildir heimar.“ Í kjölfarið kom ég svo út úr skápnum.“

Spurð um persónuleg mál

Hvernig var þér tekið af þínum nánustu?

„Bara mjög vel. Ég var í raun heppin með hvernig fólk tók þessu. Ég var búin að umkringja mig fólki sem sumt var hinsegin og vissi að ég væri þar í góðum höndum þegar ég kæmi út. En ég vissi ekki hvernig ég ætti að segja foreldrum mínum frá þessu og ákvað að skrifa þeim bréf. Þar útskýrði ég að ég væri trans og þetta endaði á að vera fimm til sex blaðsíðna leiðbeiningabæklingur sem svaraði helstu spurningum um trans,“ segir hún og hlær.

„Ég sagði mömmu að prenta þetta út og lesa og svo gætu þau farið að mjólka beljurnar og hugsa aðeins um þetta. Við gætum svo átt samtal síðar.“

„Félagslega var það erfitt; ég þurfti svo mikið að útskýra fyrir öllum allt. Ég þurfti að standa í því að leiðrétta, og auðvitað spyrja margir í góðu en það er erfitt að þurfa sífellt að útskýra hlutina, sérstaklega um svona ótrúlega persónulega hluti. Hvernig maður upplifir sig, hvaða kyn maður er, er með því persónulegasta sem við höfum. Fólk gerir sér kannski ekki grein fyrir því að það er erfitt fyrir okkur að þurfa að tala um þessa persónulegu hluti og fólk leyfir sér stundum að fara yfir mörk sem það myndi ekki fara yfir annars. Eins og að spyrja beint út hvort ég sé búin að fara í kynfæraaðgerð eða hvort ég sé á hormónum. Þetta eru persónulegir hlutir um minn líkama sem mér finnst bara ekki koma fólki við,“ segir Ugla og segist þó alveg skilja forvitnina og veit að oft er það ekki illa meint að spyrja.

Milli tannana á fólki

Eftir að þú komst út, hefur þú upplifað fordóma?

„Ég hef upplifað meiri fordóma í fjölmiðlum og á netinu, frekar en í eigin persónu. Ég hef ekki orðið fyrir miklum beinum fordómum, þó það hafi alveg gerst. En fólk segir oft ótrúlega niðrandi hluti á netinu, hvort sem það er í kommentakerfum eða á samfélagsmiðlum. Það er ótrúlegt hvað fólk leyfir sér að segja. Sem talskona sem hefur verið mikið að tala opinberlega og beitt sér fyrir réttindum trans fólks, hef ég oft verið á milli tannanna á fólki,“ segir Ugla og segist hafa sjóast með árunum, en í byrjun hafi hún tekið það inn á sig.

„Ég áttaði mig á því tiltölulega fljótt að skoðun einhvers manns í kommentakerfinu er ekkert að fara að breyta því hver ég er eða hvernig ég upplifi mig. Sama hvað einhver segir, er það aldrei að fara að breyta því hver ég er. Ég er að berjast fyrir því að fólk fái að vera það sjálft, að því sé tekið opnum örmum og að við höfum frelsi til að tjá okkur eins og við erum. Sama hvað eitthvert ógeð segir, hefur það ekki áhrif á mig, en auðvitað líður sumu hinsegin fólki og trans fólki mjög illa vegna neikvæðra ummæla í fréttum eða á netinu. Til dæmis núna nýlega hafi birst greinar gegn trans fólki og það er ótrúlega erfitt fyrir okkar samfélag að horfa upp á það því þetta er svo úr takti við raunveruleikann,“ segir hún.  

„Þetta snýst ekki lengur um málfrelsi, heldur er verið að níða fólk. Þegar þitt tjáningarfrelsi er farið að hafa áhrif á velferð fólks, er það ekki lengur tjáningarfrelsi heldur ofbeldi.“

Missti óvart af flugvélinni

Árið 2016 fór Ugla á alþjóðlega ráðstefnu á Ítalíu um trans málefni og átti sú ferð eftir að vera örlagarík.

„Þar kynntist ég maka mínum Fox. Ég endaði á að flytja með honum til Bretlands þar sem við búum í dag.“

Var það ást við fyrstu sýn?

„Þetta var alveg pínu fyndið. Mér finnst persónulega eitthvað hallærislegt við „ást við fyrstu sýn“ en það var alveg augljós tenging,“ segir Ugla og hlær.

 „Hann var ráðinn þangað til að gera mynd um ráðstefnuna og taka viðtöl. Ég var á viðmælendalistanum og það var alltaf fólk að koma og kynna okkur, aftur og aftur. En við létum alltaf eins og það væri verið að kynna okkur í fyrsta sinn, sem var smá einkahúmor okkar á milli. Við kynntumst svo mjög vel á þessari ráðstefnu og ég enda á því að missa óvart af flugvélinni til Íslands. Enginn trúði að það hefði verið óvart,“ segir hún og hlær. 

„En ég missti í alvöru af henni; ég fór dagavillt. Þannig að það endaði á að Fox bað mig um að koma með sér til Bretlands því það væri svo auðvelt að fá þaðan flug heim. Ég gerði það og hef svolítið verið þar síðan.“

Ugla og Fox vinna mikið saman að alls kyns verkefnum í þágu hinsegin fólks.

„Við erum búin að gera ótrúlega mikið. Í Bretlandi eru að sumu leyti betri tækifæri og stærri markaður til að koma þessum málefnum á framfæri, og veitir líka meira af því. Hér er mikil anti-hinsegin áróður, sérstaklega gagnvart trans fólki. Við erum búin að standa í miklum aktívisma, höfum flutt fyrirlestra og gert myndir um trans fólk til að vekja athygli á því að við erum bara eins og annað fólk. Við viljum bara hafa frelsi til að vera við sjálf,“ segir Ugla og nefnir að einnig hafi þau skrifað saman tvær bækur.

Árásir í beinni útsendingu

Störf Uglu í þágu hinsegin fólks í Bretlandi hafa vakið verðskuldaða athygli og var hún valin af BBC ein af hundrað áhrifamestu konum heims árið 2019.

„Það er viðburður á hverju ári þar sem settur er saman listi og þetta árið var ég á honum, sem kom mér mjög á óvart! Þarna á listanum voru ótrúlega flottar konur. Stuttu áður hafði ég verið í viðtali hjá Piers Morgan í Good Morning Britain sem allt Bretland horfir á. Í því viðtali var hann með ótrúlegar blammeringar,“ segir hún.

„Við Fox fórum saman í þetta viðtal að tala um kynsegin málefni og Piers gerði lítið úr okkur og talaði niður til okkar, í beinni útsendingu,“ segir hún og segir hann hafa verið verulega dónalegan, jafnvel áður en myndavélin fór að rúlla.

Viðtalið vakti mikla athygli, en Ugla og Fox héldu ró sinni þrátt fyrir að sitja undir þessum árásum Morgans.

„Sem betur fer sá fólk hvað hann kom illa fram við okkur. Jafnvel þótt fólk skildi ekki allt sem við vorum að reyna að útskýra, sá það að það væri augljóst að hann væri að níða okkur. En í rauninni gerði þessi þáttur málefninu gott því við áttum að vera í fjórar mínútur í útsendingu en enduðum á að vera korter, því hann bara hætti ekki,“ segir hún og hlær.  

Að búa sig undir það versta

Að hverju eruð þið Fox að vinna þessa dagana?

„Við erum að búa til mikið af fyrirlestrum og erum að vinna að annarri bók. Ég er að skrifa pistla í dálk í blaðið Metro, aðra hverja viku,“ segir Ugla og segir gott að búa í Brighton.

„Brighton er í raun besti staðurinn til að búa á í Bretlandi, en ég er að verða pínu þreytt á Bretlandi. Pólitíska landslagið er svo ótrúlega erfitt og það eru miklu meiri fordómar hér gagnvart hinsegin fólki. Við erum að ræða það að flytja til Íslands,“ segir hún og segir Íslendinga vera komna mikið lengra hvað varðar lagaleg réttindi hinsegin fólks sem og félagslega viðurkenningu.

„Auðvitað eru enn fordómar á Íslandi og margt sem þarf að berjast fyrir en það er samt engan veginn á sama plani og í Bretlandi. Það er mikill munur til dæmis að koma fram í fjölmiðlum í Bretlandi og á Íslandi. Á Íslandi upplifi ég miklu meiri skilning og fólk sem tekur viðtölin vill gera gott og fræða og vinnur af einlægni, en í Bretlandi er frekar að fólk vilji rífast við þig eða gera lítið úr þér. Ég þarf alltaf að búa mig undir það versta.“ 

Ugla býr og starfar í Brighton á Englandi. Hún heldur …
Ugla býr og starfar í Brighton á Englandi. Hún heldur fyrirlestra, skrifar greinar og bækur og býr til kvikmyndir með maka sínum Fox. Ljósmynd/Sharon Kilgannon

Nú hefur verið bakslag í baráttu hinsegin fólks víða. Hvað veldur?

„Það er erfitt að segja, en ég held að það sé vegna þess að við höfum aldrei staðið framar þegar kemur að mannréttindamálum og réttindum hinsegin fólks. Hinsegin fólk er að fá ákveðinn sýnileika og það er vitundarvakning núna sem aldrei hefur átt sér stað áður. Og á sama tíma og við erum sífellt að færast framar eru ákveðin öfl sem rísa upp og mótmæla því. Við lifum á tvísýnum tímum; ákveðnir öfgahópar eru að beita sér gegn réttindum hinsegin fólks.“

Aldrei sofna á verðinum

Hvernig sérðu fyrir þér framtíð hinsegin fólks?

„Það fer eftir því hvernig við tökum á þessu bakslagi því það er svo auðvelt að hlutirnir fari í ranga átt. Það er þegar byrjuð ákveðin afturför. Á Íslandi þurfum við að ákveða hvernig samfélag við viljum skapa og hvers konar orðræðu ætlum við að samþykkja. Við getum ekki samþykkt endalaust fordómafulla orðræðu, hvort sem hún er í blaðagreinum eða á netinu. Við getum ekki verið umburðarlynd gagnvart fólki sem sýnir ekki umburðarlyndi. Ég trúi ekki öðru en að fólk vilji búa í samfélagi sem byggir á frelsi, umhyggju, kærleik og sem leyfir fólki að vera það sjálft. Ég neita að trúa að fólk vilji það ekki. Við megum aldrei sofna á verðinum og baráttunni er hvergi nærri lokið og mikið sem þarf að berjast fyrir. Ég er sannfærð um að við getum gert það, en þá verða allir að taka þátt.“

Ítarlegt viðtal er við Uglu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka