Vinna við að bæta aðgengi að gosstöðvunum í Meradölum heldur áfram en í gær var nýjum skiltum komið upp við upphaf gönguleiða sem sýna kort af svæðinu, auk þess sem fleiri stikur voru settar niður á gönguleið A.
Í færslu björgunarsveitarinnar Þorbjarnar á Facebook segir að nokkuð krefjandi hafi verið að stika gönguleiðina þar sem að bera þurfti um 20 stórar stikur um 2 kílómetra inn eftir Fagradalsfjalli.
Annars hafi allt gengið vel síðustu daga, fyrir utan nokkra einstaklinga sem fóru vanbúnir af stað í gosgöngu.
Lokað er fyrir aðgengi upp að gosstöðvunum í dag vegna veðurs en gul viðvörun er í gildi fyrir Suðurland og Faxaflóa. Óljóst er hvenær hægt verður að opna aftur en það verður mögulega síðar í dag.