Eldur kom upp í hesthúsi í Hafnarfirði í morgun og voru tveir hestar inni. Tilkynning barst rétt fyrir klukkan sjö í morgun en þá logaði í þakinu. Þetta segir Hafsteinn Halldórsson, aðstoðarvarðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu.
Slökkviliðinu tókst að koma hrossunum út, og lítur út fyrir að þeir séu í góðu ásigkomulagi.
Að sögn Hafsteins gengur slökkvistarfið vel. „Við erum farin að sjá fyrir endann á þessu,“ segir hann í samtali við mbl.is.
Verið er að rífa niður hesthúsið núna, slökkva í glæðum og sjá hvort það leynist meiri eldur undir klæðningunni, segir Hafsteinn.