„Þarna erum við ekki að standa okkur sem gestgjafar“

Faðirinn var með eitt barn í burðarpoka á bakinu og …
Faðirinn var með eitt barn í burðarpoka á bakinu og hélt hann á hinu. Ljósmynd/Hermann Valsson

Tvö börn á leikskólaaldri urðu fyrir ofkælingu við gosstöðvarnar í Meradölum í gær. Börnin höfðu verið á göngu með foreldrum sínum sem voru einnig við það að örmagnast.

Hermann Valsson leiðsögumaður var á svæðinu og kom fólkinu til aðstoðar. Hann segir gott að vel hafi farið en telur að brýna þurfi fyrir erlendum ferðamönnum að taka ekki ung börn með að gosinu.

„Þarna erum við ekki að standa okkur sem gestgjafar,“ segir Hermann í samtali við mbl.is.

Almannavarnir og björgunarsveitir hafa varað fólk við að taka börn með, meðal annars vegna hættu á gasmengun. 

Í samtali við mbl.is á föstudaginn sagði Bogi Ad­olfs­son, formaður björg­un­ar­sveit­ar­inn­ar Þor­bjarn­ar, það helst vera er­lenda ferðamenn sem taki börn­ með sér að gosstöðvunum. 

Skyggnið var ekki gott í gær.
Skyggnið var ekki gott í gær. Ljósmynd/Hermann Valsson

Flutt með torfærubíl

Parið, sem er frá Ísrael, vildi að fyrstu ekki þiggja hjálp Hermanns og björgunarsveitarmanna á svæðinu vegna hræðslu við kostnað þess að þiggja hana.

Hermann segir að eftir að náðst hafi að sannfæra þau um að ekki þyrfti að greiða fyrir aðstoðina hafi fjölskyldan verið flutt niður af fjallinu með torfærubíl. Þá hafi sjúkrabíll komið á staðinn og athugað með líðan fjölskyldunnar. 

Þegar komið var niður að bílastæðinu spurði Hermann lögreglukonu á svæðinu hvort hann ætti að gefa skýrslu af málinu. Svör lögreglukonunnar komu honum á óvart.

„Eftir að ég kom niður þá þá gaf ég mig á tal við lögreglukonu til að kanna hvort ég ætti að gefa einhverja skýrslu, en svar hennar var að það væri ekki til neins. Það væri ekki hægt að koma í veg fyrir athafnir heimskra einstaklinga.“
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka