Meinlaust veður upp úr klukkan fimm

Gul viðvörun tekur gildi klukkan níu á Suðurlandi og Faxaflóa.
Gul viðvörun tekur gildi klukkan níu á Suðurlandi og Faxaflóa. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gul viðvörun vegna veðurs tekur gildi á Suðurlandi og í Faxaflóa klukkan níu í dag. Hún verður að öllu óbreyttu í gildi til klukkan 15.

Birgir Örn Höskuldsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofunni segir að hvöss suðaustanátt verði á suðvesturhorni landsins. Er búist við 13 til 18 metrum á sekúndu.

Hvassast verður við suðurströndina, frá Vestmannaeyjum og Eyjafjöllum og út á Reykjanesskaga. Þá má einnig búast við slæmu veðri yst á Snæfellsnesi, hjá Ólafsvík.

Upp úr klukkan þrjú á að draga úr vindinum talsvert. Rigningin heldur þó eitthvað áfram en veðrið ætti að vera meinlaust upp úr klukkan fimm, að sögn Birgis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka