Maður féll um 20 til 30 metra niður gil í Norðdal við þjóðveginn upp á Steingrímsfjarðarheiði á Ströndum fyrr í dag.
Úlfar Örn Hjartarson, svæðisstjóri björgunarsveitarinnar Dagrenningar á Ströndum, staðfestir þetta í samtali við mbl.is. Maðurinn er töluvert slasaður, að sögn Úlfars.
„Okkar menn komu á staðinn og vegfarandi var búinn að hlúa að honum, og okkar menn ásamt sjúkraflutningamönnum fóru ásamt lækni og hlúðu enn frekar að honum þangað til þyrla Landhelgisgæslunnar kom á vettvang.“
Óskað var eftir aðstoð björgunarsveitarinnar um klukkan tíu mínútur í tvö en þyrlan lenti með manninn á Landspítalanum í Fossvogi rétt fyrir klukkan fimm.
Úlfar segir að björgunaraðgerðir hafi heilt yfir gengið mjög vel og voru um það bil 20 manns á vettvangi þegar mest lét.