Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, telur bráðnauðsynlegt að grípa til aðgerða til að sporna við verðbólgu. Sakar hún stjórnvöld um hagstjórnarmistök.
Lilja Alfreðsdóttir viðskiptaráðherra hafnar því alfarið. Fullyrðir hún að verðbólgan væri hærri hefðu stjórnvöld fylgt ráðleggingum Kristrúnar þegar hún starfaði sem hagfræðingur áður en hún fór í stjórnmál.
Þetta kom fram þegar Lilja Alfreðsdóttir viðskiptaráðherra og Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, mættust í Sprengisandi á Bylgjunni í dag.
„Ég held að það hafi verið áður en að Kristrún fór í stjórnmálin þá held ég að hún hafi talað fyrir mun meiri aðgerðum sem hefði þá ýtt undir frekari verðbólgu,“ sagði Lilja.
„Ef við hefðum farið eftir því sem Kristrún sagði þá væri verðbólgan mun meiri, ég bara fullyrði það,“ bætti Lilja við.
Kristrún svaraði þessu með því að segjast ekki vilja fara í sögulegar skýringar.
„Grunnurinn að þeirri gagnrýni sem birtist hjá mér á sínum tíma var um hvar peningurinn væri veitt. Það væri verið að sóa verulegum peningum með því að dæla mörg hundruðum milljörðum króna í því að halda hagkerfinu uppi í gegnum húsnæðismarkaðinn. Með því að ráðast í þær aðgerðir hafi það dregið úr svigrúmi ríkissjóðs til að beita sér með markvissum hætti,“ sagði Kristrún.
Þá sakaði Kristrún stjórnvöld um að rýra getu ríkisins til að veita grunnþjónustu með því að lækka skatta. Segir hún að undir lok þessa kjörtímabils verði tekjur ríkissjóð sem hluti af landsframleiðslu þær lægstu á öldinni
„Það sem ég hef áhyggjur af er að það er verið að skapa ákveðna ímynd um að við getum ekki gert betur vegna þess að peningarnir eru ekki til þegar það er markvisst verið að draga úr þessu svigrúmi og skapa spennu á vinnumarkaði,“ sagði Kristrún.
Lilja benti á að núverandi ríkisstjórn væri samsteypustjórn og þurfi flokkarnir því að gera málamiðlanir í stefnumálum sínu, en hún hefur sjálf talað fyrir sérstökum skatti á ofurhagnað.