Áfram verður lokað inn á gosstöðvarnar í dag vegna veðurs. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum.
Þar segir að svæðið verði lokað að minnsta kosti þangað til í fyrramálið. Ákvörðun um opnun svæðisins verði tekin á stöðufundi klukkan 8.30 miðvikudaginn 10. ágúst og tilkynning send á fjölmiðla í kjölfarið.
Gul veðurviðvörun gildir á Suðurlandi til hádegis í dag. Lokað hefur verið við gosstöðvarnar í Meradölum frá því á sunnudag.
Í hugleiðingum veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands segir að ekkert lát sé á lægðaganginum í kringum landið og fara flestar lægðirnar til norðurs fyrir vestan land og mun því lítið lát verða á vætutíðinni um landið sunnan- og vestanvert. Samt sem áður mun restin af landinu fá vætu líka, en oftast í mun minni skömmtum.