Allir regnbogafánarnir skornir niður að nóttu til

Íbúar á Hellu tóku eftir því þegar þeir vöknuðu í …
Íbúar á Hellu tóku eftir því þegar þeir vöknuðu í gær að það væri búið að skera niður alla regnbogafánanna í bænum. Ljósmynd/Gunnar Aron Ólason

Allir regnbogafánarnir, sem voru dregnir að húni á Hellu í tilefni hinsegin daga um helgina voru skornir niður í skjóli nætur aðfaranótt mánudags. Þetta staðfestir Eggert Valur Guðmundsson, oddviti sveitarstjórnar Rangárþings ytra.

Að mati Eggerts er líklegra að um sé að ræða hatursglæp en einföld skemmdarverk.

Að hans sögn héngu fánarnir enn uppi klukkan ellefu á sunnudagskvöldið. Hann segir að hann og aðrir íbúar hafi tekið eftir því morguninn eftir að allir níu regnbogafánarnir væru komnir niður. Sveitarfélagið flaggaði átta fánum en einum fána var flaggað af verslun á Hellu.

„Það var búið að skera á allar fánalínurnar. Þetta lá bara eins og hráviði þarna á hringtorginu. Einn fannst síðan í ruslatunnu og tveir fánar eru enn týndir.“

Ekki sammála aðalvarðstjóra lögreglu

Eggert segir að málið hafi verið tilkynnt lögreglu í gær og að rannsókn standi nú yfir. Elín Jóhannsdóttir, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi, sagði í samtali við Fréttablaðið í dag að verknaðurinn væri ekki hatursglæpur, heldur einungis skemmdarverk. 

Eggert segist þó ekki vera sammála þeirri staðhæfingu Elínar. „Hugmyndafræðin á bak við þennan verknað er fáránleg og það pirrar mann mest.“

Hann segir þá skipta máli hver það var sem skar niður fánana og hvað vakti fyrir þeim einstaklingi þegar verknaðurinn var framinn, þegar metið er hvort hann verði flokkaður sem hatursglæpur eða sem skemmdarverk.

„Ef ég þyrfti að velja á milli þá myndi ég frekar segja að þetta væri hatursglæpur heldur en skemmdarverk. Auðvitað snýst þetta um þessa tilteknu fána en ekki eitthvað annað.“

Eggert Valur Guðmundsson, oddviti sveitarstjórnar Rangárþings ytra.
Eggert Valur Guðmundsson, oddviti sveitarstjórnar Rangárþings ytra. Ljósmynd/Facebook

Fólki brugðið

Eggert bindur vonir við það að sökudólgurinn sjáist í myndefni í þeim eftirlitsmyndavélum sem eru víðs vegar í kringum fánastangirnar. Hann bendir á að eftirlitsmyndvélar séu á brúnni í bænum og fyrir framan bensínstöð Olís.

„Þetta er verulega leiðinlegt mál og fólki er mjög brugðið. Maður skilur þetta bara ekki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert