Veðurfræðingurinn Sigurður Þ. Ragnarsson, betur þekktur sem Siggi stormur, telur að eldgosið í Meradölum muni ekki hafa áhrif á veðurfar í borginni.
„Gastegundir sem streyma frá eldgosum drekka vissulega í sig hita úr umhverfi og sólu. Magnið þarf að vera miklu meira til þess að það hafi merkjanleg áhrif. Hins vegar getur verið staðbundið súrara regn yfir gosstöðvunum,“ segir Sigurður í samtali við mbl.is.
„Það er náttúrlega ekki gott, hvorki fyrir vatnsbúskap né mannskepnuna og ég tala nú ekki um bíla og annað. Það ryðgar allt í súru regni.“
Sigurður segir staðsetninguna á gosinu aðeins betri nú en í fyrra.
„Ef vindur myndi standa stöðugt yfir Grindavík og rigning væri í kortunum gæti maður ímyndað sér að það færi ekki vel með þök og annað á húsum. Það gæti valdið tæringu en það þarf að koma meiri kraftur í gosið til að hafa verulegar áhyggjur.“