Gostímabilið gæti virkjað eldstöðvar nær Reykjavík

„Það eru allar líkur á því,“ segir Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur, þegar hann er spurður hvort eldgosatímabilið sem er hafið á Reykjanesskaga muni koma til með að virkja eldstöðvakerfin sem liggja nær höfuðborgarsvæðinu.

„Hvenær það gerist, vitum við náttúrulega ekki. Það eru litlar líkur á að þetta gos sem að við erum með núna hafi einhver bein áhrif á byggð á Stór-Reykjavíkursvæðinu. En við vitum það náttúrulega af sögunni líka, á svona gostímabilum, að það hefur gosið í Krýsuvík.

Og nyrstu gígarnir á Krýsuvíkurkerfinu eru raunar beint fyrir ofan Ásvelli, eru svona sirka fimm kílómetra frá. Og það getur gosið þar aftur,“ segir Þorvaldur, sem er gestur í nýjasta þætti Dagmála.

Horft yfir Brennisteinsfjöll. Þar hefur gosið á sögulegum tíma.
Horft yfir Brennisteinsfjöll. Þar hefur gosið á sögulegum tíma. mbl.is/RAX

Gæti valdið skaða í efri byggðum

Hann bendir einnig á að kerfi í Brennisteinsfjöllum og Bláfjöllum hafi gosið á sögulegum tíma. 

„Hraunbungan sem að liggur frá skíðasvæðinu og í áttina að Elliðavatni, það eru hraun sem hafa myndast í gosum á Bláfjallakerfinu. Það yngsta þar er skömmu eftir landnám. [...] Ef það verður gos á þeim stað og hraunflæði fer þarna niður eftir, þá gæti slíkt hraunflæði farið að hafa áhrif og valdið skaða í efri byggðum Reykjavíkur, og það er líka alltaf möguleiki á að það nái jafnvel lengra.“

Eldstöðvakerfi á Reykjanesskaga (bleik). Jarðskjálftabelti liggur eftir skaganum og markar …
Eldstöðvakerfi á Reykjanesskaga (bleik). Jarðskjálftabelti liggur eftir skaganum og markar flekaskilin (rauð). Jarðhitasvæði eru einnig sýnd (gul). Sprungusveimar Hengils til norðausturs og Reykjaness til suðvesturs eru svartir. Kort/ÍSOR
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert