Ráðherrar vonast eftir kippi í fríverslun vestur um haf

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Antony Blinken ut­an­rík­is­ráðherra Banda­ríkj­annaátti á fundi …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Antony Blinken ut­an­rík­is­ráðherra Banda­ríkj­annaátti á fundi í Hörpu í fyrra. Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fagnar frumvarpi, sem fram er komið á Bandaríkjaþingi um breyttar áherslur á Norðurslóðum. Í frumvarpinu er m.a. kveðið á um gerð fríverslunarsamnings við Ísland.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag, þriðjudag.

Fyrir öldungadeild Bandaríkjaþings liggur nú umfangsmikið frumvarp um málefni Norðurslóða, sem tekur til öryggis, siglinga, rannsókna, fjárfestinga og viðskipta, sem að miklu leyti miðast að því að halda rússneskum umsvifum þar í skefjum.

„Íslensk stjórnvöld hafa lengi ýtt á að ríkin geri með sér fríverslunarsamning og sá áhugi virðist vera gagnkvæmur. Við vonum að það komi kippur í þau mál við þetta,“ segir Katrín í samtali við Morgunblaðið, en telur of snemmt að segja til um framhaldið.

Utanríkisráðherra sammála

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra tekur í sama streng. „Við erum mjög ánægð með að það er þverpólitískur stuðningur við málið. Það er jákvætt að finna að Ísland á vini á Bandaríkjaþingi, sem vilja efla samskiptin með þessum hætti. Bandaríkin eru ein okkar helsta vina- og bandalagsþjóð og við viljum treysta þau bönd.“

Hvorugur ráðherranna vill bollaleggja um framhaldið. „Það er ótímabært að ræða hluti eins og samningsmarkmið í mögulegum fríverslunarsamningum,“ segir forsætisráðherra en játar þó að þar væri fríverslun með sjávarafurðir Íslendingum baráttumál.

Utanríkisráðherra er sama sinnis en segir slíkan samning opna mun fleiri dyr „Tækifæri okkar í fríverslun ná langt út fyrir sjávarútveginn einan.“

Meira í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert