Katrín Ólafsdóttir, dósent í hagfræði í Háskólann í Reykjavík, segir að hægt sé að fara aðrar leiðir til að bæta stöðu fólks á vinnumarkaði en að semja um nafnlaunahækkanir sem minnka óðum í meiri verðbólgu.
„Þar getur ríkisstjórnin komið til aðstoðar, til dæmis með barnabótum, vaxtabótum eða einhverju slíku. Svo er hægt að leggjast í aðgerðir sem halda aftur af verðbólgu.“
Í skýrslu sem Katrín skrifaði að beiðni forsætisráðuneytisins um stöðu og horfur á vinnumarkaði í aðdraganda kjarasamninga kemur fram að takmarkað svigrúm sé til launahækkana og að mikilvægt sé að kaupmáttaraukning síðustu ára týnist ekki á næsta samningstímabili.
Aftast í skýrslunni leggur Katrín svo áherslu á einstök atriði sem lúta að öðru en beinum launahækkunum, þar á meðal styttingu vinnuvikunnar, aðferðum til að koma í veg fyrir kulnun í starfi og að þeir sem upplifi einkenni kulnunar fái viðeigandi aðstoð svo eitthvað sé nefnt.
Drífa Snædal, sem sagði af sér sem forseti Alþýðusambands Íslands fyrr í dag, gagnrýndi niðurstöður skýrslunnar í gær og sagði það ekki rétt að ekkert svigrúm væri til launahækkana í ljósi þess að launahlutfall fyrirtækja hafi farið lækkandi síðustu árin og að margar atvinnugreinar standi vel að vígi eftir Covid-faraldurinn.
Katrín segir í samtali við mbl.is að samkvæmt reikningum hins opinbera hafi launahlutfall fyrirtækja farið hækkandi frá árinu 2009 til ársins 2018 en hafi vissulega lækkað síðan.
„Launahlutfallið hefur lækkað frá 2018 en er enn yfir langtímameðaltali,“ segir Katrín.
Drífa benti þá á að framsetningin í skýrslunni væri villandi þar sem upphafspunkturinn í gröfum í upphafi skýrslunnar sé alltaf 2008, þar sem fólk var þá nýbúið að taka mikið högg í kaupmætti vegna efnahagshrunsins.
Katrín segir að það hafi verið lagt upp með það frá upphafi að hafa langtímasýn í skýrslunni. „Þetta er eins langt aftur og hægt var að fara með sambærilegar tölur.“
En gátuð þið ekki farið aftur til ársins 2006?
„Nei, Hagstofan er bara með sambærileg gögn frá 2008. Ef þú ferð aftur fyrir það þá ertu ekki með sambærileg gögn. Mér var lagt upp með að skoða þessi langtímasambönd en einhverstaðar í skýrslunni tek ég fyrir mismunandi tímapunkta og ræði hver munurinn er,“ bætir Katrín við.