Hundraðasti rampurinn var vígður fyrir framan Sjóminjasafnið á Eyrabakka klukkan 14 í gær sem partur af verkefninu römpum upp Ísland.
Römpum upp Ísland hófst formlega með vígslu á fyrsta rampinum þann 23. maí í Hveragerði og er stefnt að því setja upp 1000 rampa um allt land á næstu fjórum árum. Eru því 900 rampar eftir.
Leikskólabörn frá leiksólanum Strandheimum á Eyrarbakka og íbúar á Sólvöllum voru sérstakir gestir á athöfninni. Leikskólabörnin sungu nokkur lög við athöfnina. Þá voru Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og Fjóla St. Kristinsdóttir bæjarstjóri Árborgar viðstödd og fluttu bæði ávörp.
Stofnaður var sjóður með aðkomu fjölmargra fyrirtækja og aðila sem standa straum af kostnaði fyrir þá verslunar- og veitingahúsaeigendur sem taka þátt í verkefninu Römpum upp Ísland.
Með römpunum er stefnt að því að gera öllum kleift að sækja veitingastaði og verslanir á landinu öllu. Haraldur Þorleifsson, stjórnandi hjá Twitter og stofnandi hönnunarfyrirtækisins Ueno, er hvatamaður verkefnisins.