Í öllu falli glæpur gegn hinsegin fólki

Álfur Birkir Bjarnason, formaður Samtakanna '78.
Álfur Birkir Bjarnason, formaður Samtakanna '78. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er í öllu falli glæpur sem beinist augljóslega gegn hinsegin fólki vegna þess að það voru engir aðrir fánar skornir niður á Hellu heldur en regnbogafánar og þetta var gert á fleiri en einum stað í bænum, þannig að það hljómar frekar skipulagt fyrir mér,“ segir Álfur Birkir Bjarnason, formaður Samtakanna '78.

Allir níu regnbogafánarnir sem voru dregnir að húni á Hellu í tilefni Hinsegin daga um helgina voru skornir niður í skjóli nætur aðfaranótt mánudags.

„Í raun er þetta skýr birtingarmynd hversdags haturs sem kemst upp á pallborðið þegar bakslagið er orðið svona.“

Álfur telur líklegt að aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi hafi dregið ályktun of snemma þegar hún sagði verknaðinn ekki vera hatursglæp, heldur einungis skemmdarverk. „Þetta mætti klárlega rannsaka áður en slík ályktun er dregin.“

Skilaboðin séu skýr

„Þetta er óþægilegt, ég get ekki ímyndað mér til dæmis að vera hinsegin manneskja sem býr á Hellu eða þar í kring núna vegna þess að fánar eru alltaf táknmyndir fyrir einhvern hóp, eða þann sem flaggar, og í þessu tilfelli er greinilega verið að ráðast að hinsegin fólki, regnbogafáninn er okkar tákn,“ segir Álfur.

„Skilaboðin eru voðalega skýr að þú sért ekki velkominn og þú megir ekki hafa þig frammi.“

Að hluta til innflutt vandamál

Hvað veldur þessu bakslagi sem hefur orðið í baráttu hinsegin fólks?

„Það er helst það, eins og við höfum séð í mannréttindabaráttu í gegnum tíðina, að þegar ákveðnir hópar verða of sýnilegir, þegar konur fá of mikil réttindi, eða þegar hinsegin fólk fer að sjást í bíómyndum og þess háttar, þá er svona íhaldssamari hópur af fólki sem finnst að því vegið af einhverjum ástæðum, með frelsi annarra, og það er í raun skýringin á bakslaginu.

Svo að einhverju leyti er þetta eitthvað sem við höfum séð erlendis, Bretland og Bandaríkin eru góð dæmi um það, og að einhverju leyti Svíþjóð líka, þannig að þetta er að hluta til innflutt vandamál sem ég held að meirihluti Íslendinga sé ekki sammála.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert