Nærri tvöfalt meiri veikindi á Landspítala

Í starfsemisupplýsingum Landspítala kemur fram að mikil fjarvera hafi verið …
Í starfsemisupplýsingum Landspítala kemur fram að mikil fjarvera hafi verið vegna Covid-veikinda frá janúar til mars. mbl.is/Unnur Karen

Veikindahlutfall starfsfólks Landspítala hækkaði gífurlega á fyrstu þremur mánuðum ársins þar sem það mældist 11,8%. Það hafði verið stöðugt í um 6,5% frá árinu 2007 en fór að hækka upp úr 2015. Þá fer atvikum sjúklinga og starfsfólks fjölgandi og starfsmannavelta lækna, hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða eykst stöðugt.

Þetta kemur fram í grein Brynjólfs Gauta Guðrúnar Jónssonar, doktorsnema í tölfræði við Háskóla Íslands. Í greininni tekur hann saman helstu gögn um rekstur Landspítalans og það sem betur má fara í birtingu þeirra.

„Atvikum sjúklinga og starfsfólks hefur fjölgað en eins og með tilkynningar, um til dæmis ofbeldi, þá veit maður ekki alltaf hvað er fjölgun atvika og hvað eru fleiri skráningar, eða jafnvel færri skráningar. Slíkum tölum er því ekki hægt að treysta alveg hundrað prósent, en það er kannski einhver vísbending,“ segir Brynjólfur í samtali við mbl.is.

Mikil fjarvera vegna Covid-19

Í starfsemisupplýsingum Landspítala kemur fram að mikil fjarvera hafi verið vegna Covid-veikinda frá janúar til mars á þessu ári. „Það er klárlega staðan að einhverju leyti, en manni finnst skrýtið að hlutfallið hafi hækkað svona mikið núna miðað við fyrri bylgjur í Covid-19 faraldrinum,“ segir Brynjólfur.

Í greininni birtir Brynjólfur gögn úr starfsemisupplýsingum Landspítala sem sýna mun á veikindahlutfalli 2021 og 2022 eftir starfskjarna spítalans til að kanna hvort þetta sé bundið við ákveðnar starfstegundir.

Taflan sýnir mun á veikindahlutföllum 2021 og 2022 eftir starfskjarna …
Taflan sýnir mun á veikindahlutföllum 2021 og 2022 eftir starfskjarna spítalans. Brynjólfur Gauti Guðrúnar Jónsson

Skortur sé á ítarlegri gögnum

Brynjólfur telur að skortur sé á betri og ítarlegri gögnum um rekstur Landspítala.

„Góð gögn um nýtingu legurýma eru ekki aðgengileg, en ég vitnaði í greinar eftir nokkra lækna í Læknablaðinu, þar sem fram kemur að verið sé að nýta rúmin of mikið, það er yfir hundrað prósent nýting.

Það eru of fá legurými. Bent hefur verið á það í fréttum að fólk liggur á göngum á bráðamóttökunni og svo framvegis. Starfsfólkinu á spítalanum er alvara þegar það talar um þessa hluti,“ segir hann.

„Svona opinber gögn geta hjálpað í allri umræðu í þjóðfélaginu, fólk myndi treysta því betur að það sem er sagt sé rétt og standist skoðun, frekar en að heyra fólk í mikilvægum embættisstöðum tala þvert á hvert annað.“

Hann bætir við að tölurnar hafi ekki komið á óvart, en hann starfaði sjálfur á Landspítalanum fyrir nokkrum árum. Tilgangurinn hafi verið að skoða gögnin og koma þeim til skila.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert