Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir afsögn Drífu Snædal, forseta Alþýðusambands Íslands (ASÍ), tímabæra. Þá sakar hún hana um að hnýta í sig og stjórn Eflingar með ómálefnalegum hætti.
Drífa tilkynnti um afsögn sína í dag.
„Það er leitt að Drífa Snædal hafi notað tækifærið, um leið og hún tilkynnti tímabæra afsögn sína, til að hnýta með ómálefnalegum hætti í mig og stjórn Eflingar. Drífa veit sjálf að það er langt um liðið síðan grafa fór undan trúverðugleika hennar og stuðningi í baklandi verkalýðshreyfingarinnar. Það hefur ekkert með innri mál Eflingar að gera, þó svo að Drífa hafi ákveðið að blanda sér í þau, hugsanlega vegna þess að hún hélt að það yrði sér til framdráttar þegar hún sá sitt pólitíska stundaglas tæmast,“ skrifar Sólveig Anna á Facebook-síðu sína.
Sólveig segir Drífu aldrei hafa getað stutt umbreytingaverkefni hennar, Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, og Vilhjálms Birgissonar, formanns Starfsgreinasambands Íslands.
„Drífa talar um blokkamyndun. Staðreyndin er sú að Drífa kaus sjálf að loka sig inni í blokk með nánasta samstarfsfólki forvera síns, Gylfa Arnbjörnssonar, og þeirri stétt sérfræðinga og efri millistéttarfólks sem ræður ríkjum í stofnunum ríkisvaldsins á Íslandi og einnig á skrifstofum Alþýðusambandsins. Uppruni, bakland og stuðningshópar Drífu voru í stofnana-pólitík og í íhaldsarmi verkalýðshreyfingarinnar, hjá fólki eins og Halldóru Sveinsdóttur formanni Bárunnar. Drífa gat aldrei stutt við það umbreytingaverkefni og endurnýjun sem ég, Ragnar Þór Ingólfsson og Vilhjálmur Birgisson höfum leitt með stuðningi mikils fjölda félagsfólks í okkar félögum um land allt. Það er staðreynd.“
Þá sakar hún Drífu um að hafa ekki viljað taka slaginn gagnvart stjórnvöldum.
„Drífa talar um að hún hafi aldrei vílað fyrir sér að "taka slaginn" gagnvart stjórnvöldum. Því miður er það ekki rétt eins og fjöldi dæma sýnir. Drífa Snædal vildi semja við ríkisstjórnina og SA um að hafa af verka- og láglaunafólki umsamdar launahækkanir í kórónaveirukreppunni. Og það hefði orðið raunin ef ekki hefði verið fyrir andstöðu Eflingar.“
„Drífa vildi heldur ekki "taka slaginn" þegar Icelandair braut lög um stéttarfélög og vinnudeilur til að nauðbeygja flugfreyjur í miðri kjaradeilu - hún stöðvaði málssókn fyrir Félagsdómi og undirritaði þess í stað skammarlega hvítþvottaryfirlýsingu. Drífa tók heldur ekki slaginn um viðurlög gegn launaþjófnaði, heldur reyndi í tvígang að bera á borð fyrir aðildarfélög ASÍ handónýta lagasetningu þar sem staða fórnarlamba launaþjófnaðar hefði orðið verri en hún er nú,“ heldur Sólveig áfram.
Jaframt segir Sólveig vinnubrögð Drífu hafa verið lokuð og andlýðræðisleg.
„Vinnubrögð Drífu voru lokuð, andlýðræðisleg og vöktu iðulega undrun og gagnrýni, langt út fyrir raðir VR og Eflingar. Í málefnum vinnumarkaðarins voru nánustu félagar Drífu formenn BSRB og BHM. Hún hafði ekki áhuga á að hlusta á raddir forystu stærstu félaganna innan vébanda ASÍ.“