Tekur við af Drífu: „Þetta kemur mjög brátt upp“

Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsamband Íslands.
Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsamband Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands og fyrsti varaforseti Alþýðusambands Íslands, mun taka við embætti Drífu Snædal sem forseti ASÍ, fram að þingi sambandsins sem verður haldið í byrjun október. Þetta staðfestir hann í samtali við mbl.is.

Eins og greint var frá fyrir skömmu hefur Drífa sagt af sér sem forseti ASÍ. Treysti hún sér ekki til að starfa áfram næstu mánuði, að því er fram kom í yfirlýsingu sem send var á fjölmiðla, og sagði hún það m.a. vera vegna samskipta við ýmsa kjörna fulltrúa innan sambandsins.

Frétti af afsögninni í morgun

Kristján Þórður segir fregnirnar af afsögn Drífu hafa komið brátt upp en hann kveðst hafa fengið fréttirnar í morgun.

Þá segist hann ekki hafa hugað að því hvort hann hyggst bjóða sig fram í embætti forseta ASÍ á þinginu sem fer fram í október. 

„Það er bara allt opið með það. Ég er ekki kominn þangað sjálfur að spá í því. Þetta kemur mjög brátt upp og við þurfum að fara yfir stöðuna,“ segir Kristján. 

Skoðanaskipti eðlileg

Í yfirlýsingunni sem send var á fjölmiðla kemur fram að mikil átök hafi verið innan ASÍ sem hafi verið óbærileg og dregið úr vinnugleði og baráttuanda.

„Þetta er náttúrulega virk hreyfing sem er með mikil skoðanaskipti og það er auðvitað mjög eðlilegt að það séu skoðanaskipti,“ segir Kristján, spurður um það sem fram kom í yfirlýsingu Drífu. Hann vildi þó ekki tjá sig nánar um málið.

Muntu sjá eftir Drífu í embætti forseta?

„Já, já. Maður að sjálfsögðu gerir það. En núna er náttúrulega verkefni hjá mér að stíga þarna inn og vinna með þá stöðu sem upp er komin. Fara yfir þau atriði sem þarf að fara yfir og halda hlutunum gangandi fram að þingi ASÍ.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert