Vilja afsökunarbeiðni frá Fréttablaðinu

Rússneska sendiráðið
Rússneska sendiráðið mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Rússneska sendiráðið í Reykjavík hefur gefið frá sér yfirlýsingu þar sem það krefur Fréttablaðið um afsökunarbeiðni, eftir að mynd af fót stígandi á fána þeirra birtist í blaðinu í morgun.

Er um að ræða viðtal Fréttablaðsins við Val Gunnarsson, sem hefur verið úti í Úkraínu undanfarnar vikur. Valur, sem nú er í Kænugarði ásamt vini sínum Berki Gunnarssyni, lýsti þar stöðunni í höfuðborginni.

Þar nefndi hann meðal annars að Úkraínumenn nokkrir hefðu „fundið ný not“ fyrir rússneska fánann, og er mynd sett með fréttinni sem sýnir fánann liggjandi á dyramottu og fótur á fánanum til þess að sýna að fáninn sé notaður sem slík.

Rússarnir voru vægast sagt óánægðir með myndina.
Rússarnir voru vægast sagt óánægðir með myndina. Skjáskot/Fréttablaðið

„Þeir vinni heimavinnuna sína betur“

Sendiráðið rússneska var vægast sagt óánægt með myndbirtinguna og gaf frá sér yfirlýsingu á facebooksíðu sinni þar sem þeir telja að um sé að ræða brot gegn 95. gr. Almennra hegningalaga þar sem kveðið er á um að „hver sem móðgar erlent ríki formlega skuli vera sektaður eða jafn vel fangelsaður“ að sögn sendiráðsins.

„Spurningin er, hvers vegna fjölmiðill á Íslandi, landi sem segist fylgja evrópskum lýðræðissjónarmiðum, þykir viðeigandi að birta efni sem brýtur bæði lög og almenna skynsemi, auk siðareglna blaðamanna,“ segir í færslu sendiráðsins. Það heldur áfram:

„Og gerið það, ekki eyða tímanum ykkar í að reyna að verja þetta á bak við tjöld tjáningafrelsisins. Þetta hefur ekkert með réttindi fjölmiðla eða tjáningafrelsið að gera.

Fyrir þá sem sjá [það] ekki, er það eina sem er eftir er að mæla með því að þeir vinni heimavinnuna sína betur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert