„Ekki ófyrirséð að upp úr sjóði á einhverjum tímapunkti“

Halldór Benjamín Þorbergsson og Drífa Snædal.
Halldór Benjamín Þorbergsson og Drífa Snædal. Samsett mynd

„Þær væringar sem verið hafa innan verkalýðshreyfingarinnar síðustu mánuði hafa ekki farið fram hjá neinum,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í samtali við Morgunblaðið. Það er afsögn Drífu Snædal, forseta Alþýðusambands Íslands, í gærmorgun sem er til umræðu.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag, fimmtudag.

„Það er kannski ekki ófyrirséð að upp úr sjóði á einhverjum tímapunkti,“ heldur Halldór áfram og bætir því við að staðan sé óheppileg fyrir margra hluta sakir.

Þykir leitt að hafi farið sem fór

Samstarf þeirra Drífu hafi verið margþætt undanfarin fjögur ár á ólíkum sviðum en þar standi gerð kjarasamninga óneitanlega upp úr, þótt af fjölmörgu öðru sé að taka.

„Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins vinna að fjöldamörgum framfaramálum sem fara ekki jafn hátt og kjarasamningar. Að því sögðu þykir mér leitt að þetta hafi farið sem fór hjá Alþýðusambandinu. Ég þakka Drífu fyrir samstarfið og óska henni auðvitað velfarnaðar á nýjum vettvangi, hver sem hann verður,“ segir Halldór og ber engan kvíðboga fyrir framtíðinni.

„Ég held að það séu tækifæri í öllu, það eru válynd veður núna af mörgum ástæðum en við verðum að trúa því að við getum siglt kjarasamningum í höfn, enda er það í þágu allrar þjóðarinnar,“ lýkur hann samtalinu.

Meira í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert