Um fimmtíu manns eru saman komnir í Ráðhúsi Reykjavíkur til að mótmæla úrræðaleysi í málum fjölskyldna ungra barna, sem bíða þess að komast inn á leikskóla.
Kristín Tómasdóttir, fjögurra barna móðir og fjölskyldumeðferðarfræðingur, efndi til mótmælanna, sem hófust kl. 8.45 við fundarherbergi borgarráðs.
Í tilefni mótmælanna var í gær send eftirfarandi yfirlýsing á fulltrúa í borgarráði:
„Í dag óskum við eftir því að borgarráð grípi til tafarlausra aðgerða sem miða að því að leysa dagvistunarvandann í Reykjavík strax. Þolinmæði okkar er á þrotum og við munum þrýsta á borgaryfirvöld þar til viðunandi lausn verður að veruleika.
Við áttum okkur á því að dagvistunarmálin eru margþætt og flókin en þau eru ekki óleysanleg. Lausnir hafa fundist í stórum og litlum sveitarfélögum á Íslandi, svo ekki séð talað um ef leitað er út fyrir landsteinana. Sem dæmi má nefna að í Danmörku fá öll börn sex mánaða og eldri dagvistun ef eftir því er óskað. Reykjavíkurborg hefur mistekist þegar kemur að langtímalausn á dagvistunarvandanum. Það er miður.“
„Við skorum á æðstu stjórnendur borgarinnar að grípa í taumana og slá met í tímabundnum aðgerðum til að leysa vandann sem við stöndum frammi fyrir akkúrat núna. Við höfum hlustað og sýnt umburðarlyndi og gríðarlega útsjónarsemi. Nú er svo komið að við viljum ekki lengur heyra skýringar heldur sjá breytingar,“ segir enn fremur í yfirlýsingunni.
„Mögulega þarf að grípa til lausna sem myndu ekki flokkast undir kjöraðstæður eða uppfylla ströngustu reglugerðir en gætu leyst þá örvæntingu sem er til staðar hjá mörgum barnafjölskyldum um þessar mundir.
Það er von okkar að nú verði hugsað út fyrir kassann og gripið til ráðstafana sem borgin myndi ekki endilega undir öðrum kringumstæðum gera. Við hvetjum borgarráð til þess að setja aukið fjármagn og mannafla í málaflokkinn svo hægt verði að standa við stóru orðin um að öll börn 12 mánaða og eldri geti sótt leikskóla frá 1. september 2022.
Börnin okkar geta ekki beðið fram í október/nóvember og því síður heilt starfsár til viðbótar. Við getum ekki beðið svo lengi. Og atvinnulífið þolir illa að missa af framlagi okkar foreldranna vegna seinagangs og klúðurs borgaryfirvalda.
Við lýsum okkur tilbúin til þess að nýta okkar krafta til þess að hjálpa borginni að koma af stað leikskólum, bráðabirgðahúsnæði, lóðum, áætlunum eða öðru sem þarf til að hér verði dagvistunarkerfi sem virkar í september 2022.“