Hóta verkföllum áður en sest er við samningaborðið

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, …
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, og Vilhjálmur Birgisson, formaður Verka­lýðsfé­lags Akra­ness hafa öll staðið í miklum átökum við Drífu Snædal, sem nú hefur sagt af sér sem forseti ASÍ. Samsett mynd

Drífa Snædal var að öllum líkindum rödd skynseminnar í hópi þeirra verkalýðsforingja sem hafa sig hvað mest frammi í þjóðfélagsumræðunni.

Þetta segir Stefán Einar Stefánsson, fv. fréttastjóri á Morgunblaðinu, í nýjasta þættinum í hlaðvarpi Þjóðmála. Þar ræða hann og Hörður Ægisson, ritstjóri Innherja á visir.is, meðal annars um þau átök sem hafa átt sér – og eiga sér enn – stað innan verkalýðshreyfingarinnar.

Sem kunnugt er sagði Drífa Snædal af sér sem forseti ASÍ í gærmorgun eftir mikil átök við aðra stjórnendur innan verkalýðshreyfingarinnar, þá helst Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formann Eflingar, og Ragnar Þór Ingólfsson, formann VR.

Breytt staða frá 2019

Hörður rifjar upp í þættinum að Lífskjarasamningurinn árið 2019 hafi falið í sér mikla kjarabót fyrir heimilin í landinu og það hafi ekki komið fyrirtækjum í koll að semja um háar launahækkanir á þeim tíma sem samningurinn var gerður og það hafi ekki brotist út í verðbólgu.

„Það þarf ekki að stafa það út fyrir nokkurn einasta mann að aðstæður í dag eru með allt öðruvísi hætti. Fólk þarf því að nálgast út frá þeim staðreyndum,“ segir Hörður. Aðspurður segist hann þó ekki bjartsýnn á að það verði raunin.

„Það er einhvern veginn þannig stemning að fólk í þessari hreyfingu eru að tromma upp hvort annað í hástemmdum yfirlýsingum. Það þarf alltaf að segja að það stefni í átök og jafnvel talað í samlíkingu við stríð, stríðsátök. Þau hóta verkföllum án þess að vera búin að setjast niður með viðsemjendum sínum, fulltrúum atvinnurekenda. Það er ekki búið að birta neinar kröfugerðir en þetta er strax orðin stemningin. Það er eins og það sé sjálfstætt markmið að það eigi að vera átök,“ segir Hörður.

Þá segja þeir báðir að verkalýðsforystan láti oft eins og kjaraviðræður séu þeirra einkamál.

„Þau tala mjög oft eins og stór hluti almennings sé andstæðingur þeirra eins og Sólveig Anna gerir í nýrri yfirlýsingu gegn Drífu Snædal, sem ótrúlegt en satt var rödd skynseminnar í þessum hópi. Nú er fátt sem bendir til þess að þessu fólki muni halda nokkur bönd,“ segir Stefán Einar og vísar í orð Drífu Snædal frá því í gær að ástandið innan hreyfingarinnar hafi verið orðið óbærilegt.

Í þættinum er einnig rætt um stöðu Samtaka atvinnulífsins og forystu annarra atvinnurekendafélaga sem mun á næstu vikum og mánuðum eiga samtal við verkalýðshreyfinguna um gerð kjarasamninga, hlutverk fjölmiðla sem flytja fréttir af yfirlýsingum aðila vinnumarkaðarins og margt fleira. Þá er jafnframt rætt um sölu Símans á Mílu til franska félagsins Ardian og hlutverk Samkeppniseftirlitsins í þeim viðskiptum. Loks er rætt um möguleika Seðlabankans til að takast á við verðbólgu og efnahagsaðstæður – en ekki síst um stöðu Ásgeirs Jónssonar innan Seðlabankans, þann mannskap sem hann hefur sér til aðstoðar og hvernig til hefur tekist með sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins.

Hægt er að hlusta á þáttinn hér fyrir neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert