„Mótmæli er sjálfsagður réttur allra í okkar samfélagi,“ segir Skúli Helgason, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og formaður menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkurborgar, um mótmæli fjölskyldna ungra barna við því úrræðaleysi sem þau upplifa er þau bíða eftir að koma þeim inn á leikskóla borgarinnar.
Fjöldi foreldra kom saman í Ráðhúsi Reykjavíkur í morgun til að mótmæla úrræðaleysi í málum fjölskyldna ungra barna, sem bíða þess að komast inn á leikskóla.
„Mér finnst það fullkomlega eðlilegt og skiljanlegt að fólk vilji þrýsta á að fá skjóta lausn á sínum málum og við erum að fjölga leikskólaplássum til muna til að mæta þörfum foreldra,“ segir Skúli í samtali við mbl.is, en hann er formaður stýrihóps um leikskólauppbyggingu í borginni.
Vinna er snýr að fjölgun leikskólaplássa hófst árið 2019 eftir að tillaga þess efnis var samþykkt í árslok 2018. Til þess að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla þá var reiknað með að fjölga þyrfti um 700 til 750 leikskólaplássum á þeim tíma.
Í dag er aftur á móti þörf á 2000 plássum vegna fólksfjölgunar í borginni, bæði vegna aðflutnings frá öðrum sveitarfélögum og að utan og hærri fæðingartíðni í borginni.
„Verkefnið gengur út á það að fjölga leikskólaplássum til að geta boðið börnum allt niður í 12 mánaða í leikskóla og við höfum þegar bætt við rúmlega 500 plássum. Við reiknum með að svipaður fjöldi bætist við á næstu 4-6 mánuðum og alls verður fjölgað um rúmlega 2000 leikskólapláss í Reykjavík fram til 2025 sem er nálægt því að vera 40% aukning.“
Skúli segir að eins og staðan er núna þá séu framkvæmdir í gangi.
„Við höfum opnað tvo nýja leikskóla á þessu ári og stendur til að opna fimm til viðbótar fram að áramótum. Þeir verða staðsettir við Nauthólsveg, Kleppsveg, Ármúla, í Vogabyggð og við Vörðuskóla á Barónsstíg. Það eru allir að vinna hörðum höndum að því að það geti gerst eins fljótt og kostur er.“
Aðspurður segir hann að sökum viðhaldsframkvæmda á eldri leikskólum þá sé borgin á eftir áætlun hvað varðar fjölgun leikskólaplássa.
„Það er alveg rétt að við erum aðeins á eftir miðað við þær spár sem gerðar voru í vor um að við gætum tekið við yngri börnum núna í haust. Afhending nýrra leikskóla seinkaði einkum vegna mikillar þenslu á byggingamarkaði, áhrifa kórónaveirufaraldurs og stríðsrekstrar í Evrópu. En mestu munaði um óvenju mörg viðhaldsverkefni í eldri leikskólum sem gerðu að verkum að ekki hefur verið hægt að innrita í öll pláss í gömlu leikskólunum,“ segir hann.
„Þetta voru meðal annars verkefni sem tengdust rakaskemmdum og myglu bæði í borgarreknum og einkareknum skólum. Þá lokuðust pláss sem við reiknuðum með að geta innritað ný börn í, en það er hins vegar tímabundið því að um leið og framkvæmdum lýkur þá eru ný börn tekinn inn. Það hefur tekist að finna farsælar lausnir á veigamestu málunum þar undanfarið sem er jákvætt.“
Um víðfeðmt vandamál er að ræða fyrir foreldra ungra barna, að fá ekki dagvist fyrir börnin sín með haustinu. Skúli segist skilja vel að það sé erfitt að búa við óvissu sem þessu fylgir en unnið sé að lausnum á mörgum vígstöðvum. Spurður hvernig stendur á því að foreldrar fá ekki dagvist fyrir barnið sitt fyrr en barnið er orðið rúmlega tveggja ára segir hann:
„Þetta kerfi hefur verið þannig lengi að það hefur verið mun meiri eftirspurn heldur en framboð af plássum. Við því erum við að bregðast með kröftugri hætti núna en oftast áður. Og það hefur þrátt fyrir allt tekist að lækka inntökualdurinn verulega, það er ekkert svo langt síðan að börn voru að jafnaði tveggja og hálfs árs þegar þau voru tekin inn í leikskóla.
Svo var meðalaldurinn kominn niður í tveggja ára og síðasta haust var meðaldur barna í kringum 19 mánuðir við inntöku. Við munum ná þessum meðalaldri talsvert neðar með þessari miklu fjölgun plássa sem framundan er á þessu ári og næsta vetur. Málin þokast því jafnt og þétt í rétta átt.“