Skólaganga barna á flótta undirbúin

Um 300 börn á grunnskólaaldri eru meðal þeirra sem hafa …
Um 300 börn á grunnskólaaldri eru meðal þeirra sem hafa fengið hér vernd. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stefnt er að því að koma sem flestum flóttabörnum á grunnskólaaldri í skóla, helst í sínu hverfi, fyrir komandi skólaár, að sögn Óttars Proppé, sem leiðir stýrihóp barna- og menntamálaráðuneytisins um málefni barna á flótta og barna af erlendum uppruna.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag, fimmtudag.

Óttarr segir ráðuneytið ræða náið við sveitarfélögin og kennarasamböndin um málið. Í vor voru gefnar út leiðbeiningar til foreldra, á úkraínsku og ensku, um það hvernig innrita ætti börn í skóla.

Varðandi leikskólapláss fyrir börn sem hafa komið hingað á flótta vísar Óttarr á sveitarfélögin og segir það ekki hafa komið til umræðu að vera með kvóta eða annað sambærilegt kerfi. „Sveitarfélögin eru almennt að vinna í sínum málum og við fylgjumst með héðan.“

11 framhaldsskólar með móttökuáætlun

Þá er stýrihópurinn með málefni barna á framhaldsskólaaldri á sinni könnu. „Við vonum að sem flest börn fái þannig tækifæri til menntunar og pláss.“

Ellefu framhaldsskólar eru með sérstaka móttökuáætlun og lista yfir þá má finna á heimasíðu Stjórnarráðsins. Þar af eru þrír í Reykjavík og nágrenni, einn á Suðurnesjum, Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi. Tveir skólar standa til boða á Suðurlandi, annar þeirra er í Vestmannaeyjum, og tveir á Vesturlandi. Óttarr segir fleiri skóla hafa sett upp móttökuáætlanir síðan umræddur listi var birtur.

Spurður hvernig verði haldið utan um þann hóp barna sem komið hafa til landsins á flótta, ein síns liðs, segir hann: „Fylgdarlaus börn eru á ábyrgð barnaverndarnefndar, það eru barnaverndarmál og við munum halda áfram að styrkja þá vinnu.“

Meira um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert