Á Landspítala þurfti að fjarlægja báða fótleggi Daniel Hund, sem lenti í alvarlegu slysi á fjallaskíðum á Tröllaskaga í mars á þessu ári.
Daniel var að halda upp á tveggja ára brúðkaupsafmæli sitt ásamt eiginkonu sinni, Sierra, með ferð til Íslands.
Hann lýsir slysinu í samtali við Fréttablaðið, en Daniel féll niður bratta brekku milli klettabelta og hryggbrotnaði. Þá fékk hann drep í báða fótleggina og þurfti því að fjarlægja þá.
Daniel segist hafa áttað sig samstundis á því að hann væri hryggbrotinn. Hann hafði verið einn í fjallinu, en Sierra beið í bústað sem þau höfðu tekið að leigu.
Þegar Daniel skilaði sér ekki til baka á tilsettum tíma, hafði Sierra samband við björgunarsveitir. Hann fannst nokkrum klukkustundum síðar. Stuttu eftir að þyrla Landhelgisgæslunnar lagði af stað með hann frá slysstað til Reykjavíkur, fór hann í hjartastopp.
Hryggur Daniel fór alveg í sundur um miðbik, sem olli áverkum á mænunni og lömum fyrir neðan mitti, en fótleggir Daniels voru báðir fjarlægðir vegna dreps sem hann fékk í þá.
Síðan Daniel kom heim til Bandaríkjanna hefur hann verið í endurhæfingu, en hann hlaut heilaskaða við fallið. Í samtali við Fréttablaðið segist hann vera að einbeita sér að því að læra að lesa upp á nýtt.
Að lokum þakkar hann öllum viðbragðsaðilum á Íslandi og segir umönnunina hafa verið einstaka.