„Níu ógnandi starfsmenn Hvals“

„Einn þeirra beitti mig armlás svo ég fékk mig hvergi …
„Einn þeirra beitti mig armlás svo ég fékk mig hvergi hrært,“ segir svissneski fréttamaðurinn Phil­ippe Blanc sem lenti í útistöðum við starfsmenn Hvals fyrr í vikunni sem gerðu dróna þeirra Svisslendinga upptækan. Kristán Loftsson, framkvæmdastjóri Hvals, ræddi málið við Morgunblaðið og mbl.is fyrir helgi. Ljósmynd/Aðsend

„Við erum hér að vinna heimildarmynd um Ísland, hluti af henni snýst um hvalveiðar landsins, líka hvalaskoðun og ferðamennsku, við ætlum okkur engan veginn að draga upp einhverja dökka mynd af neinu, teymið mitt er algjörlega hlutlaust,“ segir Phil­ippe Blanc, fréttamaður Swiss National Broadcasting Corporation, í samtali við mbl.is.

Morgunblaðið og mbl.is greindu í gær frá því er starfsmenn Kristjáns Loftssonar, framkvæmdastjóra Hvals hf., lögðu hald á dróna svissneska teymisins eftir að hafa rætt við þá uppi í hlíð ofan við aðstöðu fyrirtækisins eftir að þeim þótti dróninn fara háskalega nærri vinnandi fólki.

„Ég skrifaði Kristjáni Loftssyni og útskýrði verkefni okkar fyrir honum, sagði honum frá hvað við værum að fara að gera á Íslandi,“ segir Blanc, „hann sagði okkur hins vegar að nú væri hlé á starfsemi fyrirtækisins vegna sumarfría en þegar við fórum þarna upp eftir sáum við að starfsemin var í fullum gangi, skip kemur þarna inn með hval,“ heldur hann áfram.

Blanc og starfsfólk hans hafi svo verið statt uppi í hlíðinni ofan við aðstöðu Hvals er dró til tíðinda að hans sögn. „Þá koma þarna upp eftir til okkar níu starfsmenn Hvals og eru lítt við alþýðuskap, hafa í frammi ógnandi tilburði og hóta okkur. Einn þeirra beitti mig armlás svo ég fékk mig hvergi hrært,“ segir Blanc af atburðum við hvalstöðina.

Telja eðlilegt að fjalla um hvalveiðar

Segir Blanc starfsmennina hafa haldið því fram að svissneska teymið ætti engan rétt á að mynda vinnandi fólk án þess samþykkis. „Ég reyndi að útskýra hvað við værum að gera og hvers vegna við værum þarna og þá róuðust menn, sögðu að þetta mætti leysa. Þá kom eldri maður sem gekk beint að drónanum okkar og tók hann traustataki,“ segir Blanc.

Af töku drónans spratt lögreglumál sem Morgunblaðið og mbl.is hafa greint frá og hefur Hvalur hf. kært svissneska fjölmiðlafólkið fyrir drónaflugið og kvaðst Kristján Loftsson í gær bíða eftir kæru til baka frá Svisslendingum.

„Okkur þykir Ísland hreinn unaður, náttúran, fólkið og allt hér. En við teljum eðlilegt að erlendir fjölmiðlar fjalli um hvalveiðar, eins umdeilt mál og þær eru, við gætum fullkomins hlutleysis og vildum bara fá að ræða við Kristján Loftsson,“ segir Blanc en eins og Kristján sagði í gær var fyrirvarinn fullskammur og hann þurfti að bregða sér til Noregs í viðskiptaerindum.

„Svona hegðun er okkur nýlunda“

Svisslendingarnir hafi svo farið til lögreglu og tilkynnt um atburðinn. „Auðvitað gerðum við það, þarna er ráðist að okkur með offorsi og okkur þykir þetta mjög undarleg framkoma gagnvart fréttafólki, við erum bara að vinna vinnuna okkar. Við héldum ró okkar og reyndum bara að útskýra hlutina, við tókum ekki á móti, og svona hegðun er okkur nýlunda,“ segir Blanc.

Hann segir lögregluna hafa beðist afsökunar og tekið það fram að hegðun á borð við þessa sé ekki forsvaranleg. „Lögreglan sagðist svo hafa reynt að ræða við lögmann Kristjáns Loftssonar til að fá hann til að afhenda drónann en það gekk ekki,“ segir Blanc sem dvelur á Íslandi fram yfir helgi ásamt samstarfsfólki sínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert