Raunveruleg framleiðni um 15 rúmmetrar á sekúndu

Dreifing hraunsins í Meradölum við sólarupprás í gær.
Dreifing hraunsins í Meradölum við sólarupprás í gær. Ljósmynd/Roar Aagestad

Raunveruleg framleiðni í eldgosinu í Meradölum, með tilliti til holrýmis í hrauninu, mældist um 15 rúmmetrar á sekúndu á föstudaginn fyrir viku. Þetta kemur fram á vef eldfjallafræði- og náttúruvárhóps Háskóla Íslands í dag. Vika er liðin frá því að síðustu mælingar voru gerðar hjá hópnum.

Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur segir í samtali við mbl.is að um sé að ræða mjög svipaðar tölur og fram hafa komið í öðrum mælingum.

Vonandi hægt að fljúga í dag

„Þau voru að mæla þarna síðdegis á föstudaginn með dróna. Það tekur misjafnlega langan tíma að vinna úr mælingum en það er mjög fínt að fá þessar tölur, en þetta eru ekki nýjustu tölur, þær eru ekki komnar.“

Segir í færslunni að meðalrúmmálsframleiðnin frá upphafi gossins fram að klukkan 20.30 þann 3. ágúst hafi verið 20 rúmmetrar á sekúndu, 17 rúmmetrar á sekúndu fram að 5. ágúst og um 16 rúmmetrar á sekúndu frá 3. til 5. ágúst.

Magnús segir að vonandi verði hægt að fljúga yfir svæðið í dag og gera mælingar. „En það er ekki víst, veðrið ræður.“ Hann segir að eðlilegur gangur sé á gosinu og það sé óbreytt við austurjaðarinn frá því í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert