„Það er búið að vera vægast sagt ömurlegt að fylgjast með þeim forystumönnum sem komu fram í fjölmiðlum og fögnuðu þessum sorgardegi með ósmekklegum athugasemdum á hennar störf sem á sér enga stoð.“
Svo hljóðar tilkynning frá stéttarfélaginu Bárunni þar sem viðbrögð formanna verkalýðshreyfingarinnar við afsögn Drífu Snædal eru gagnrýnd.
Drífa Snædal sagði af sér sem forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ) á miðvikudaginn og sagði samskipti við ýmsa kjörna fulltrúa innan sambandsins og blokkamyndun innan félagsins gera sér ókleift að starfa áfram sem forseti ASÍ. Átökin innan ASÍ hafi verið óbærileg.
Halldóra Sigríður Sveinsdóttir er formaður Bárunnar, en í tilkynningunni frá stjórninni eru störf Drífu lofuð og Drífa sögð hafa sýnt mikinn kjark í að verja mannréttindi og kjarasamninga launamanna, þar á meðal með því að mótmæla uppsögnum starfsfólks Eflingar í apríl.
Jafnframt eru formenn VR og Starfsgreinasambands Íslands (SGS) gagnrýndir fyrir að hafa ekki mótmælt uppsögnunum.
„Nú er komin sú staða að þessir sömu aðilar eru orðnir að stóru valdamiklu bákni með sérhagsmuni að leiðarljósi,“ segir í tilkynningunni.
„Stjórn Bárunnar stéttarfélags hefur verulegar áhyggjur af því að þessi ofbeldismenning nái yfir í hreyfingunni sem stefnir í að vera ólýðræðisleg og óaðlaðandi.“
Stjórn Bárunnar vill sérstaklega koma því á framfæri að Vilhjálmur Birgisson, formaður SGS, sé ekki talsmaður Bárunnar, sem er eitt af félögum innan SGS.
„Báran, stéttarfélag hafnar öllu ofbeldi, einelti og ærumeiðingum innan hreyfingarinnar sem á að sýna gott fordæmi. Rúmlega 100 ára saga ASÍ einkennist af baráttu og sigrum launafólks. Stöndum vörð um að halda þeirri vegferð áfram.“