Segir ömurlegt að fylgjast með verkalýðsforystunni

Halldóra Sigríður Sveinsdóttir, formaður Bárunnar, og Drífa Snædal.
Halldóra Sigríður Sveinsdóttir, formaður Bárunnar, og Drífa Snædal. Samsett mynd

„Það er búið að vera væg­ast sagt öm­ur­legt að fylgj­ast með þeim for­ystu­mönn­um sem komu fram í fjöl­miðlum og fögnuðu þess­um sorg­ar­degi með ósmekk­leg­um at­huga­semd­um á henn­ar störf sem á sér enga stoð.“

Svo hljóðar til­kynn­ing frá stétt­ar­fé­lag­inu Bár­unni þar sem viðbrögð formanna verka­lýðshreyf­ing­ar­inn­ar við af­sögn Drífu Snæ­dal eru gagn­rýnd.

Drífa Snæ­dal sagði af sér sem for­seti Alþýðusam­bands Íslands (ASÍ) á miðviku­dag­inn og sagði sam­skipti við ýmsa kjörna full­trúa inn­an sam­bands­ins og blokka­mynd­un inn­an fé­lags­ins gera sér ókleift að starfa áfram sem for­seti ASÍ. Átök­in inn­an ASÍ hafi verið óbæri­leg.

Hafa áhyggj­ur af of­beld­is­menn­ingu inn­an hreyf­ing­ar­inn­ar

Hall­dóra Sig­ríður Sveins­dótt­ir er formaður Bár­unn­ar, en í til­kynn­ing­unni frá stjórn­inni eru störf Drífu lofuð og Drífa sögð hafa sýnt mik­inn kjark í að verja mann­rétt­indi og kjara­samn­inga launa­manna, þar á meðal með því að mót­mæla upp­sögn­um starfs­fólks Efl­ing­ar í apríl.

Jafn­framt eru for­menn VR og Starfs­greina­sam­bands Íslands (SGS) gagn­rýnd­ir fyr­ir að hafa ekki mót­mælt upp­sögn­un­um.

„Nú er kom­in sú staða að þess­ir sömu aðilar eru orðnir að stóru valda­miklu bákni með sér­hags­muni að leiðarljósi,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni.

„Stjórn Bár­unn­ar stétt­ar­fé­lags hef­ur veru­leg­ar áhyggj­ur af því að þessi of­beld­is­menn­ing nái yfir í hreyf­ing­unni sem stefn­ir í að vera ólýðræðis­leg og óaðlaðandi.“

Vil­hjálm­ur tali ekki fyr­ir Bár­una

Stjórn Bár­unn­ar vill sér­stak­lega koma því á fram­færi að Vil­hjálm­ur Birg­is­son, formaður SGS, sé ekki talsmaður Bár­unn­ar, sem er eitt af fé­lög­um inn­an SGS.

„Bár­an, stétt­ar­fé­lag hafn­ar öllu of­beldi, einelti og ærumeiðing­um inn­an hreyf­ing­ar­inn­ar sem á að sýna gott for­dæmi. Rúm­lega 100 ára saga ASÍ ein­kenn­ist af bar­áttu og sigr­um launa­fólks. Stönd­um vörð um að halda þeirri veg­ferð áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert