Tóku svissneskan dróna traustataki

Starfsmenn Hvals lögðu hald á dróna Svisslendinga sem þeir neita …
Starfsmenn Hvals lögðu hald á dróna Svisslendinga sem þeir neita alfarið að skila þrátt fyrir fjölda símtala frá lögreglunni á Akranesi. Ljósmynd/Þorvaldur Örn Kristmundsson

„Ja, þeir voru hérna í gær [fyrradag] uppi í hlíð, menn sem segjast vera frá Swiss National Broadcasting Corporation,“ segir Kristján Loftsson, framkvæmdastjóri Hvals hf., í samtali við Morgunblaðið um mál sem lyktaði með því að starfsmenn Hvals lögðu hald á dróna Svisslendinganna sem þeir neita alfarið að skila þrátt fyrir fjölda símtala frá lögreglunni á Akranesi.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag, föstudag.

Ekki ríkisútvarpið

Hefur Kristján kært drónaflugið til lögreglu en hópurinn sem stýrði téðum dróna er þó ekki svissneska ríkisútvarpið, sem heitir Swiss Broadcasting Corporation, heldur einkarekin svissnesk vefsíða sem kallast Swiss National Broadcasting Corporation. „Í gær [fyrradag] kom hvalbátur inn með hval og menn eru að vinna þarna á planinu,“ segir Kristján frá, „þá verða þeir varir við dróna sem flýgur þarna yfir í um 20 metra hæð. Samkvæmt lögum er það allt of nálægt, drónar eiga að vera í 150 metra fjarlægð frá athafnasvæðum nema leyfi liggi fyrir til að fara inn á svæðið,“ heldur hann áfram.

„Fyrir þessum mönnum fer einhver Philippe Blanc sem sendi mér tölvupóst 2. ágúst og bað mig um heilmikið viðtal um hvalveiðarnar,“ segir Kristján og les allan tölvupóstinn fyrir blaðamann þar sem farið er fram á ítarlegt viðtal, heimsókn á starfsstöðvar og jafnvel fjölskyldusögu Kristjáns.

Með hljóðnema á stöng

„Þeir segjast svo koma hérna 6. ágúst og ég svaraði honum tveimur dögum síðar og sagðist ekki geta hitt hann á þessum tíma,“ segir Kristján. „Ef einhver sendir þér skeyti 2. ágúst, á þriðjudegi, og vill hitta þig á laugardegi er bara ekkert á vísan að róa með það og ég sagði honum það bara,“ segir Kristján sem þurfti að hverfa til Noregs 5. ágúst.

Kveður hann þá Blanc svo hafa skipst á nokkrum tölvupóstum en ekki náð saman um fund. „Svo gerist það þarna í gær [fyrradag] að þessi dróni er að fljúga þarna yfir, ég var ekki þarna en sá myndskeið af þessu. Og uppi í hlíðinni er heilt gengi með meðal annars míkrófón á stöng, þetta var bara eins og eitthvert Hollywood-gengi,“ segir Kristján.

Meira í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert