Þuríður Pálsdóttir söngkona og tónlistarkennari lést í gær á hjúkrunarheiminu Sóltúni, 95 ára að aldri.
Þuríður fæddist í Reykjavík 11. mars 1927. Foreldrar hennar voru Páll Ísólfsson tónskáld og organisti og Kristín Norðmann píanókennari.
Þuríður lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Austurbæjar 1943 og stundaði söng- og tónlistarnám á Ítalíu á sjötta áratugnum hjá Luigi Algergoni og Linu Pagliughi. Hún lauk tónmenntakennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1967 og stundaði nám í píanóleik og óperusöng.
Þuríður var í hópi frumkvöðla í söngkvennastétt hér og söng fjölmörg óperu- og óperettuhlutverk, í Þjóðleikhúsinu, með Sinfóníuhljómsveit Íslands, hjá Leikfélagi Reykjavíkur og Íslensku óperunni og í útvarpi og sjónvarpi. Hún hélt fjölda einsöngstónleika, stjórnaði Árnesingakórnum í Reykjavík og var yfirkennari Söngskólans frá stofnun hans 1973 þar til hún lét af störfum fyrir aldurs sakir árið 2001. Þar kenndi hún söng, kennslufræði og nútímatónlistarsögu og stýrði óperudeild skólans.
Þuríður var formaður Félags íslenskra einsöngvara um árabil og sat í þjóðleikhúsráði frá 1978 og varð formaður þess 1983. Hún var varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík 1991 til 1995.
Þuríður var sæmd riddarakrossi fálkaorðunnar 1982, Cavalieri dell Ordine Al Merito della Repubblica Italiana 1987; silfurmerki Félags íslenskra leikara og hlaut einnig viðurkenningu frá Íslensku óperunni fyrir þrjátíu ára starf á óperusviði 1983. Hún hlaut heiðursverðlaun Grímunnar árið 2008 fyrir merkt ævistarf í tónlist. Ævisaga Þuríðar, Líf mitt og gleði, sem Jónína Michaelsdóttir skráði, kom út 1986.
Eiginmaður Þuríðar var Örn Guðmundsson framkvæmdastjóri. Hann lést 1987. Börn þeirra eru Kristín, Guðmundur Páll og Laufey.