Kaldasta byrjun ágústmánaðar á þessari öld

Fyrstu tíu dagar ágústmánaðar voru svalir víðast hvar á landinu.
Fyrstu tíu dagar ágústmánaðar voru svalir víðast hvar á landinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Júlí var fremur kaldur um land allt, miðað við það sem algengast hefur verið á síðari árum. Og ekki hefur betra tekið við, upplýsir Trausti Jónsson veðurfræðingur á Moggablogginu.

Fyrstu tíu dagar ágústmánaðar voru svalir víðast hvar á landinu, segir Trausti. Meðalhiti í Reykjavík er 10,2 stig, -1,4 stigum neðan meðallags sömu daga áranna 1991-2020 og -1,3 neðan meðallags síðustu tíu ára. Þetta er kaldasta ágústbyrjun á þessari öld. Hlýjast var sömu daga 2003, meðalhiti 13,5 stig. Á langa listanum er hitinn í 115. sæti (af 150). Hlýjast var 2003, en kaldast 1912. Meðalhiti þá var aðeins 6,4 stig.

Á Akureyri er meðalhiti nú 10,6 stig, -0,8 stigum neðan meðallags 1991 til 2020 og -0,4 neðan meðallags síðustu tíu ára.

Hita misskipt á landinu

Hita er nokkuð misskipt á landinu, segir Trausti. Þetta er kaldasta ágústbyrjun aldarinnar við Faxaflóa og á Suðurlandi, en að tiltölu hefur þetta verið 8. hlýjasta ágústbyrjun á Austfjörðum (af 22). Þar hefur hiti verið yfir meðallagi.

Neikvætt hitavik er mest í Bláfjallaskála, -2,0 stig, og -1,7 á Setri og Skálafelli. Hlýjast að tiltölu hefur verið í Neskaupstað, hiti hefur verið þar +1,1 stigi ofan meðallags.

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 13,5 millimetrar, um 20 prósent neðan meðallags sömu daga. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 9 mm og er það lítillega undir meðallagi.

Sólskinsstundir hafa mælst 44,7 í Reykjavík, 9 færri en að meðallagi og hafa 50 sinnum verið færri en nú á þeim rúmu 100 árum sem mælt hefur verið. Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 34,3, 13 stundum færri en í meðalári.

Á mbl.is má lesa að engin hitabylgja verður á landinu næstu daga. Norðlægar áttir eru í kortunum og hiti á bilinu 6-15 stig, kaldast nyrðra en mildast sunnanlands.

Í tíðarfarsyfirliti Veðurstofunnar fyrir júlí kom fram að meðalhiti í Reykjavík í júlí var 10,6 stig og er það -1,1 stigi undir meðallagi áranna 1991 til 2020 og einnig -1,1 stigi undir meðallagi síðustu tíu ára. Þetta er kaldasti júlímánuður í Reykavík á þessari öld (júlí 2002 og 2018 voru þó álíka kaldir). Á Akureyri var meðalhitinn 11,2 stig, -0,1 stigi undir meðallagi áranna 1991 til 2020 en -0,3 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert