Landverðir til fulltingis

Frá eldgosinu í Meradölum.
Frá eldgosinu í Meradölum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég er algjörlega sammála þessu, það er ekki hægt að ætlast til þess að fólk úr björgunarsveitunum sé mánuðum saman við eftirlits- og leiðbeiningarstörf,“ segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, í spjalli við mbl.is.

Er þar beitt skeyti Otta Rafns Sigmarssonar, formanns Slysavarnafélagsins Landsbjargar, til umræðu og er þetta meðal annars þar í en skrif hans í heild sinni eru birt hér að neðan.

„Nú þegar rúm vika er liðin af nýju eldgosi á Reykjanesi hafa meira en 35 mismunandi björgunarsveitir tekið þátt í verkefnum tengdu því með rúmlega 350 manns. Verkefnin eru misjöfn, flest snúa að almennri gæslu og aðstoð í kringum gosstöðvarnar á meðan önnur verkefni snúa að innviðauppbyggingu og aðstoð við vísindasamfélagið.

[...]

Því velti ég fyrir mér hvort það sé ásættanlegt að sjálfboðaliðar, sem í frítíma sínum æfa og þjálfa sig til þess að bregðast útköllum hvenær sem sólarhringsins, beri hitan og þungan af slíkum ferðamannastað?

Við, sjálfboðaliðarnir, erum nefnilega nokkuð öflug þegar kallið kemur, erum fljót að hlaupa til og bregðast við hinu og þessu í stuttum törnum en þegar verkefnið er að standa vaktir á dagvinnutíma dag eftir dag þá erum við sennilega komin aðeins út fyrir okkar verksvið. Vissulega höfum við staðið okkur ágætlega í verkefninu til þessa og mjög mikilvægt fyrir land og þjóð að eiga hóp sem þennan til þess að bregðast við fyrstu dagana eða vikurnar jafnvel þar til einhverjir aðrir koma og taka við. En það þurfa þá einhverjir að koma og taka við þessu kefli til þess að tryggja það að ekki verði langt gengið á úthald okkar félagsmanna þegar það líður á haustið.“

Hverfum aftur að bæjarstjóra Grindavíkur sem segir landverði nú munu létta undir með björgunarsveitum. „Álagið á þessar sveitir á landsvísu minnkar ekkert þótt eldgos hefjist. Það er  ekki hægt að leggja þetta á fólk og það er fullur skilningur á því hjá ríkislögreglustjóra og verið að vinna að því að létta á sveitunum“ segir Fannar.

Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, tekur undir þau orð formanns Landsbjargar …
Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, tekur undir þau orð formanns Landsbjargar að álag á björgunarsveitir sé ómanneskjulegt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hann segir enn fremur að landverðirnir komi til starfa næstu daga, góð reynsla hafi verið af þeim í fyrrasumar. „Þetta er fólk sem kann vel til verka og getur létt á sveitunum, þarna þarf að bæta í hvort tveggja löggæslu og aðra viðbragðshópa,“ segir bæjarstjóri.

En er þetta ekki allt spurning um peninga eins og svo oft?

„Björgunarsveitirnar eru náttúrulega ekki í þessu vegna fjárhagslegs ábata en auðvitað kostar þetta allt heilmikið,“ svarar Fannar. „Ríkisvaldið styður þær svo gegnum almannavarnir, það er ekki hægt að vera með mannskap í sjálfboðaliðavinnu endalaust, þetta er bara allt of mikið álag á þetta góða fólk sem sveitist blóðinu við að koma samborgurum sínum til hjálpar,“ segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, undir lok spjallsins.

Hér má lesa færslu Otta Rafns Sigmarssonar:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka