Ógáfulegt að spara við uppbyggingu á íbúðarhúsnæði

„Við sem samfélag höfum ekki efni á öðru en að byggja af gæðum, annað er ekki sjálfbært,“ segir Sigríður Maack, formaður Arkítektafélags Íslands, í samtali við mbl.is um mikilvægi sálrænna þátta þegar kemur að gríðarlegri uppbyggingu á íbúðarhúsnæði og þéttingu byggðar.

Sigríður tekur undir orð Páls Jakobs Líndal umhverfissálfræðings, er hann kallaði eftir því í samtali við Morgunblaðið á mánudag, að litið væri til áhrifa umhverfis á heilsu og vellíðan fólks í þeirri miklu uppbyggingu sem á að eiga sér stað á höfuðborgarsvæðinu og víðar á næstu árum.

Páll sagði þá helst skipta máli að ekki sé byggt of þétt, græn svæði séu áberandi, og að byggð sé fjölbreytt og allt á mann­leg­um skala – ekki byggt of hátt eða stórt.

Vill oft verða að mannlegar þarfir séu vanmetnar

Sigríður segir ógáfulegt að spara þegar kemur að undirbúningi þessa risaverkefnis sem felst í uppbyggingunni. „Það mun bara kosta okkur á hinum endanum,“ bendir hún á.

Sigríður Maack, formaður Arkítektafélags Íslands.
Sigríður Maack, formaður Arkítektafélags Íslands.

„Við verðum að praktísera nútímaleg og þverfagleg vinnubrögð sem byggja á rannsóknum og greiningu viðfangsefnis og bestu þekkingu á úrlausnum þess,“ bætir Sigríður við og segir að mannlegar þarfir sé oft vanmetnar í samanburði við kostnað.

Óteljandi dæmi um velheppnaða borgarhluta

Sigríður segist lítast betur á blikuna en Páli þó að sjónarhorn hans séu vissulega mikilvæg innlegg í umræðuna og nefnir að óteljandi dæmi séu um velheppnaða endurnýjun eldri íbúðarhúsa og borgarhluta sem bætt hafa lífsgæði íbúanna.

„Við höfum líka séð óteljandi dæmi um velheppnaða nýja borgarhluta þar sem þorað er að vinna að fjölbreytileika og nýsköpun í borgarumhverfi og íbúðagerð sem svara betur þörfum manneskjunnar í dag,“ bætir Sigríður við.

Hún segist ekki vilja gera lítið úr þeirri skipulagsvinnu sem fram fer hjá sveitarfélögum en bendir jafnframt á að þau sé misjafnlega í stakk búin til að standa að slíkri vinnu.

„Mögulega væri hægt að efla samvinnu þeirra á milli svo þekking þeirra gæti nýst fleirum.“ Þá segir Sigríður að hönnunarsamkeppnir, séu gott tæki til grunnrannsókna og undirbúnings fyrir skipulags- og byggingarverkefni og ekki síður til að efla umræðu og þekkingu almennings á skipulags- og byggingarmálum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert